Mótmæla harðlega skipulagsbreytingum og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu

 Vinstri græn í Skagafirði lýsa miklum vonbrigðum með þær einhliða  skipulagsbreytingar  sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag. Samráð við sveitarfélög, starfsfólk og íbúa er ekkert og vinnubrögðin við skipulagsbreytingarnar forkastanlegar.

 Ekkert liggur fyrir um að hagræðing náist með því að sameina stjórnun heilbrigðismála Norðurlands undir  Sjúkrahúsið á Akureyri sem  nú þegar verður að bera út fólk vegna fjársveltis. Sameining sem þessi  setur þjónustustig heilbrigðismála í Skagafirði í algert uppnám og sérfræðiþekking í héraði er gerð að engu. Minna má á að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki , sem nú á að svifta sjálfstæði sínu ,hefur fengið sérstaka viðurkenningu fyrir góðan rekstur og þjónustu.

 

Með yfirlýsingum heilbrigðisráðherra í dag gerir hann lítið úr starfsfólki, sérfræðingum og íbúum þeirra svæða sem nú missa sjálfræðið yfir staðbundinni heilbrigðisþjónustu. Vandséð er að skipulagsbreytingarnar skili hagræðingu og hætta er á að fjármagn og sérfræðiþekking færist úr héraði og kippi þar með grundvelli undan heilbrigðisþjónustu við íbúa heilla héraða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir