Minkur í hænsnakofa
Í síðustu viku réðist minkur til inngöngu í hænsnakofann á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði og drap þar fimm hænur og einn hana. Er þetta í annað skiptið á þessu ári sem minkur ræðst á hænsnin á bænum en fyrripart júlí s.l. drap annar minkur fjórar hænur á bænum.
Fullvaxnir minkar eru milli 30 og 40 sentímetrar að lengd og þar af er loðið skottið hátt í 20 sentímetrar. Dýrið er mjóslegið á að líta og með lítið höfuð. Villtir minkar eru vanalega með dökkbrúnan eða svartan feld og hvítan blett undir hökunni og stundum á hálsi og milli fram- og afturfótanna. Karldýrið eru um 1,2 kíló að þyngd en læðurnar helmingi léttari.
Um miðjan mars árið 2021 kom líka minkur í hænsnin á Tyrfingsstöðum og má segja að minkastofninn leggi hænsn á bænum í einelti. Þessir þrír minkar voru allir læður og af venjulegu villiminkakyni, en þær náðust í gildrur. Bændur á Tyrfingsstöðum hafa hætt hænsnarækt að sinni og verða ekki teknar nýjar hænur fyrr en byggður hefur verið minkheldur hænsnakofi. Myndin sem hænan er á er síðan 2021.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.