Milljón í kirkjurannsókn

Stjórn Vaxtarsamnings Norðurlands vestra hefur veitt Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga 1 millj. kr. í styrk til að vinna að verkefni sem nefnt hefur verið skagfirska kirkjurannsókn­in. Hún snýst um að leita að skrá og kanna/grafa í elstu kristnu grafreiti héraðsins. Tilgangurinn er að fá upplýsingar um: 1) fjölda kirkjugarða fyrir 1300, 2) samfélagsgerð á fyrstu öldum kristni, 3) kirkjulega þróun og 4) byggðaþróun.

Næsta sumar er fyrirhugað að kanna betur leifar elsta bæjarstæðisins í Glaumbæ í þeim til­gangi að ganga úr skugga um hvort kirkjustæðið þar hefur verið fært til eins og bæjarstæðið. Við rannsókn á fornleifum í Glaumbæ skapast einstakt tækifæri til að nýta þá sérfræðiþekkingu sem þegar er til í Skagafirði með áherslu á frekari uppbyggingu á sviði menningararfsfræða og rannsókna innan héraðs og er mikilvægur hluti kirkjurannsóknarinnar sem og annarra byggðasögurannsókna. Rannsóknin mun stuðla að uppbygginu sérþekkingar og sérhæfingar innan héraðs og í alþjóðlegu fræðastarfi.

Verkefnið er áætlað til þriggja ára en sótt var um styrk til fyrsta þáttar þess sem er staðsetning og yfirborðsrannsókn minja utan þess hluta skálabyggingarinnar sem þegar hefur verið staðsett.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að:
 - Kanna hversu heillegar minjarnar syðst á rústasvæðinu eru og ganga þannig frá þeim að þær verði ekki fyrir frekari skemmdum af manna völdum.
- Kanna gerð minjanna og útlit og ákvarða hvort fleiri minjar sé að finna á svæðinu aðrar en leifar smiðju sem þekktar eru úr fyrri rannsókn.
- Fá heildarmynd af elsta byggingaskeiði Glaumbæjar.
- Geta ákveðið hvernig haga skal frekari rannsóknir í Glaumbæ þar sem einstakir möguleikar eru til að nýta minjarnar í þágu menntunar og ferðaþjónustu, þar sem staðurinn er einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir