Mikilvægur sigur á Magna á Grenivík
Það er óhætt að fullyrða að 2. deild karla í knattspyrnu er hnífjöfn í sumar. Þannig mætti lið Tindastóls, sem er í botnbaráttu deildarinnar, liði Magna á Grenivík í gærkvöldi, en með sigri hefðu Grenvíkingar tyllt sér á topp deildarinnar. Það fór á annan veg því að það voru Tindastólsmenn sem unnu gríðar mikilvægan sigur og skoluðu sér, um stundarsakir í það minnsta, upp í áttunda sæti deildarinnar. Lokatölur 1-2.
Reynsluboltinn Bjarki Már Árnason var kominn í vörn Stólanna í gærkvöldi, en hann hefur það sem af er sumri spilað með liði Drangeyjar, enda menn nokkuð vissir um að síðustu efri deilda tæklingarnar hefðu verið togaðar úr honum síðasta sumar. Nei nei. Stólarnir voru komnir yfir eftir 90 sekúndur þegar Raggi Gunn refaðist á fjærstöng og skilaði boltanum af öryggi í Magnamarkið eftir laglegt uppspil Stólanna á vinstri kanti. Tindastólsmenn voru spila ágætlega í fyrri hálfleik og á 25. mínútu unnu þeir hornspyrnu og eftir smá klafs í teignum skóflaði Konni Sigga Donna boltanum í markið og skoraði þar með fyrsta mark sitt í sumar. Staðan 0-2 í hálfleik.
Það mátti reikna með því að heimamenn reimuðu skóna betur á sig fyrir átök síðari hálfleiks og sú varð raunin. Nú lá talsvert á Stólunum sem vörðu forystu sína með kjafti og klóm. Á 74. mínútu fékk Brentton markvörður Muhammad hins vegar dæmt á sig víti eftir brot fjarri boltanum. Stuðningsmenn Magna heimtuðu víti og rautt en víti og gult fannst Þóroddi Hjaltalín, dómara leiksins, vera nóg. Úr vítinu skoraði Kristinn Þór Rósbergsson þó Brentton hafi ekki verið langt frá því að verja. Grenvíkingar höfðu því um 20 mínútur til að jafna leikinn en það hafðist ekki og fyrsti sigur Stólanna undir stjórn Stefáns Arnars staðreynd.
Þetta var í annað skiptið sem Tindastóll og Magni mætast í sumar og í báðum tilfellum unnust 1-2 útisigrar, en Stólarnir þóttu afar óheppnir að tapa fyrri leiknum heima eftir slysamark í uppbótartíma. Þá hefur Feykir heyrt því fleygt að helmingi fleiri Grenvíkingar hafi í gær verið í liði Tindastóls en í liði Magna. Magnað ef rétt er en við seljum það ekki dýrara en við keyptum það.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Hetti Egilsstöðum hér á Sauðárkróksvelli þann 19. ágúst. Það mun vera svo kallaður sex stiga leikur. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.