Mikilvægur leikur Tindastóls í kvöld
Tindastóll leikur sinn mikilvægasta leik á tímabilinu til þessa í kvöld þegar liðið tekur á móti ÍR, en bæði þessi lið eru í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Eru bæði með 14 stig, eins og reyndar Hamar og Fjölnir, eftir leiki gærdagsins.
Fjölnir sigraði Breiðablik í gærkvöldi og sendi þá grænu niður um deild í leiðinni. Hamarsmenn töpuðu heima gegn Stjörnunni. ÍR-ingar eru sem stendur í 7. sæti, Hamar í því 8. Tindastóll í 9. og Fjölnir í 10. sæti. Innbyrðisúrslit ráða röð liðanna eins og staðan er í dag.
Hamar á útileik við Keflavík í síðustu umferðinni, en Keflvíkingar eru í harðri baráttu á toppi deildarinnar. ÍR á heimaleik gegn Grindavík í síðustu umferðinni, en þar er sagan sú sama, Grindvíkingar þurfa nauðsynlega að sigra til að koma sér betur fyrir ofarlega í deildinni áður en úrslitakeppnin skellur á. Tindastóll á svo útileik við Fjölni á fimmtudaginn.
Sigri Tindastóll í kvöld hefur liðið tyllt rúmlega öðrum fætinum í úrslitakeppnina, fari leikirnir í síðustu umferðinni hjá ÍR og Hamar eftir bókinni. Þá gæti leikur Fjölnis og Tindastóls á fimmtudaginn verið úrslitaleikur um það hvort liðið verður í 7. eða 8. sæti.
Tindastóll þarf helst að stigar ÍR-inga með meira en 4 stiga mun, þar sem liðið tapaði fyrir ÍR í fyrri leik liðanna 97-93 eftir framlengingu, þannig tryggir liðið sér betri útkomu í innbyrðisviðureignunum sem gæti reynst dýrmætt þegar upp verður staðið.
Það verður hart barist í Síkinu í kvöld, það er nokkuð ljóst og full ástæða til að hvetja stuðningsmenn Tindastóls um að fjölmenna á leikinn og styðja strákana frá fyrstu mínútu og allt til loka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.