Mikil umræða um íþróttasvæðið á íbúafundi

Ungar Tindastólsstelpur á fullri ferð.

Íbúafundur var haldinn í gærkvöldi á Sal Bóknámshúss Fjölbrautaskólans þar sem kynntar voru aðalskipulagstillögur sem ráðgjafafyrirtækið ALTA vann fyrir Svf. Skagafjörð.

Vel var mætt á fundinn og sköpuðust skemmtilegar umræður og ýmsar spurningar sem brunnu á vörum fundarmanna en einna helst urðu mestu umræðurnar um æfingasvæði íþróttavallarins á Króknum. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að núverandi æfingasvæði milli aðalvallar og íþróttahúss víki fyrir stækkandi grunnskóla og bæjargarði eða skrúðgarði en byggður verði upp annað æfingasvæði rétt hjá þeim leikskóla sem nú er í byggingu.

Áskell Heiðar Ásgeirsson skipuleggjandi fundarins segir að um þetta mál hafi skapast heilmikil umræða og ýmsar spurningar komið upp og sitt sýnist hverjum um þetta mál. –Við verðum að hafa það í huga að þetta er framtíðarsýn sem kemur til framkvæmda í fyrsta lagi eftir 12 – 15 ár, segir Áskell Heiðar en vill koma því á framfæri að innan skamms verða tillögurnar settar inn á vef Svf. Skagafjarðar þar sem íbúar geta kynnt sér málið betur og enn er hægt að gera athugasemdir. Einnig komu fram á fundinum tillögur að þéttingu byggðar í neðri bænum og vel hægt að sjá fyrir sér 3500 manna íbúabyggð áður en farið er í að byggja á Nöfunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir