Mikið fjör í Síkinu á laugardaginn
Það var mikið fjör í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn sl. þegar um 80 krakkar á aldrinum 6-9 ára kepptu í körfubolta þar sem áhersla var lögð á að hafa gaman því engin stig voru talin og allir stóðu uppi sem sigurvegarar.
Á mótinu kepptu að sjálfsögðu nokkur lið frá Tindastól ásamt nokkrum gestaliðum frá Fram Skagaströnd, Samherja úr Eyjafirði, Þór Akureyri og Skallagrím úr Borganesi. Körfuboltaskóli Norðurlands, með Helga Frey Margeirssyni í fararbroddi, hrinti verkefninu af stað en fékk góða hjálp frá leikmönnum beggja meistaraflokka körfuknattleiksdeildar Tindastóls, sem sáu um liðsstjórn Tindastólsliðanna ásamt dómgæslu, og unglingaráði körfuknattleiksdeildar Tindastóls þar sem Jan Bezika, yfirþjálfari, og Thelma Knútsdóttir, gjaldkeri, sáu um uppsetningu mótsins og liðaskipan.
Eins og margir vita þá hefur Covid draugurinn verið að hrella íbúa í Skagafirði undarnfarnar vikur og þá sérstaklega skólakrakkana sem margir hverjir eru að fá sitt annað Covid smit. Nokkrum vikum áður þurfti að fresta mótinu því allt of margir voru að geinast en með stuttum fyrirvara var ákveðið að keyra þetta í gang þessa helgi við góðar undirtektir því þó sumir hafi verið ný sloppnir út úr húsi, kannski pínu slappir, stoppaði það samt ekki viljann í að koma og hafa gaman í Síkinu í nokkrar klukkustundir.
Meðfylgjandi myndir voru teknar af síðu Körfuboltaskóla Norðurlands.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.