Michael Giovacchini til Tindastóls

Michael Giovacchini Mynd: Tindastóll.is

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur gengið frá samkomulagi við Michael Giovacchini um að leika með liðinu í vetur. Hann er bandarískur leikstjórnandi en er með ítalskt vegabréf og kemur úr mikilli leikstjórnandafjölskyldu. Þetta kemur fram á vef Tindastóls.

Michael kemur úr Dartmouth háskólanum sem leikur í 1. deild háskólaboltans og er í hinni svokölluðu Ivy-deild, en hann útskrifaðist þaðan 2008 úr stjórnsýslufræðum. Hann lék ekkert á síðasta tímabili þar sem umboðsmaður hans á Ítalíu gat ekki útvegað honum starf þar við hæfi vegna nýrra vegabréfsreglna.

Michael er 181 cm á hæð og kemur úr mikilli leikstjórnandafjölskyldu ef svo má segja, því afi hans, pabbi, frændi og tveir bræður, hafa allir leikið körfubolta sem leikstjórnendur. Elsti bróðir hans hefur til að mynda verið atvinnumaður á Ítalíu í mörg ár.

Karl Jónsson þjálfari Tindastóls telur Michael vera góðan kost fyrir liðið og líklega sá sem getur leitt liðið í vetur með skynsamlegum leik samkvæmt því sem Karl hefur séð í hinum nýja leikmanni. Hann mun einnig taka að sér þjálfun eins af yngri flokkum Tindastóls í vetur.
Tindastóll hefur nú fyllt leikmannahópinn með reyndum og kappsfullum strákum sem bíða eftirvæntingafullir eftir að deildin byrji en stefnt er að því að Michael og hinn erlendi leikmaður liðsins Ricky Henderson, komi til landsins í fyrstu viku septembermánaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir