Mexikósk panna og mjólkurlaus ís

Stefán Þór og Regína með Yrsu og Valdimar. MYND AÐSEND
Stefán Þór og Regína með Yrsu og Valdimar. MYND AÐSEND

Þau Regína Valdimarsdóttir og Stefán Þór Þórsson voru matgæðingar vikunnar í tbl 26. Regína og Stefán eru gift og eiga tvö börn, Yrsu 9 ára og Valdimar 3 ára. Stefán er fæddur og uppalinn í Háfi sem er bóndabær rétt fyrir utan Þykkvabæ en Regína er ættuð úr Skagafirðinum en uppalin í Garðabæ. Regína er lögfræðingur að mennt og með meistaragráðu í lögfræði og opinberri stjórnsýslu. Starfar hann sem teymisstjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki. Stefán Þór er húsasmiður og er einnig í iðnmeistaranámi og starfar sem smiður hjá Trésmiðjunni Ýr. Þau elska mexíkóskan mat og ís og hafa eftirfarandi uppskriftir slegið í gegn á heimilinu. 

UPPSKRIFT 1
Mexíkóska pannan hennar Evu Laufeyjar – miðast við fjóra

    1 msk. ólífuolía
    3 msk. fajitas krydd
    salt og pipar
    ½ laukur, skorinn í strimla
    ½ rauð paprika, skorin í strimla
    ½ græn paprika, skorin í strimla
    5 sveppir, smátt skornir
    2 hvítlauksrif, pressuð
    3 dl tómata passata
    ½ kjúklingateningur
    5 msk. rjómaostur
    1 dl maísbaunir
    tortillavefjur
    rifinn ostur, bæði pizzaostur og cheddar
    lárperur
    sýrður rjómi
    kóríander

Aðferð: Forhitið ofninn í 180°C. Hitið olíu á pönnu, helst pönnu sem þolir að fara inn í ofn. Steikið kjúklinginn upp úr olíu, kryddið til með fajitas kryddi, salti og pipar. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið áfram þar til mjúkt í gegn. Hellið tómata passata saman við og myljið kjúklingateninginn yfir. Blandið öllu vel saman og bætið rjómaostinum saman við í lokin. Lækkið hitann og leyfið réttinum að malla við vægan hita í 10 mínútur. Hellið kjúklingablöndunni í skál, raðið tortillavefjum í sömu pönnu en ef þið eruð ekki með pönnu sem þolir að fara í ofn þá notið þið eldfast mót. Fyllið pönnukökurnar með kjúklingafyllingunni og sáldrið rifnum osti yfir og magnið af ostinum fer eftir smekk. Inn í ofn við 180°C í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.

EFTIRRÉTTUR
Mjólkurlaus súkkulaðiís

    1 dós kókosmjólk
    1½ dl döðlur
    2 msk. hreint kakóduft
    smá af hreinni vanillu og ½ tsk.
    salt
    200 g súkkulaði bætt við eftir að öllu hefur verið blandað saman

Aðferð: Allt sett í blandara og blandað vel saman. Súkkulaði bætt við ísinn. Ísinn setur í box og inn í frysti.

Verði ykkur að góðu!

Regína og Stefán Þór skora á Steinunni Gunnsteinsdóttur að taka við keflinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir