Menntamálaráðherra heimsækir Fjölbrautaskólann
Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, heimsótti FNV s.l. þriðjudag ásamt föruneyti sínu. Hún hóf heimsóknina með viðræðum við skólastjórnendur og hélt síðan á fund nemenda á Sal skólans. Þar veitti hún viðtöku réttindayfirlýsingu framhaldsskólanema úr hendi Bryndísar Lilju Gísladóttur, en 17. nóvember er alþjóðlegur dagur framhaldsskólanema. Í tilefni dagsins fór herferð af stað sem ber yfirskriftina „Kveikjum á perunni” og er ætlað að kynna réttindayfirlýsingu framhaldsskólanema og Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF).
Réttindayfirlýsingin er gerð með það í huga að framhaldsskólanemar með mismunandi menningar- og efnahagslegan bakgrunn geti nýtt sér hana og staðið saman í baráttunni fyrir bættum kjörum. Ráðherra hvatti nemendur til dáða og lagði áherslu á lýðræði í skólastarfi auk þess sem hún svaraði spurningum úr sal.
Að loknum fundi á Sal átti ráðherra fund með starfsfólki FNV á kennarastofu þar sem starfsfólki gafst kostur á að ræða málefni framhaldsskóla þ.á.m. stöðu námskrárgerðar og fjármál skólans, en FNV, líkt og aðrir framhaldsskólar, stendur frammi fyrir talsverðum niðurskurði á fjárveitingum næsta árs að öllu óbreyttu.
Að sögn Jóns F. Hjartarsonar skólameistara hefur lengi staðið til að menntamálaráðherra heimsækti skólann og fannst Jóni fundurinn hafi verið góður og gagnlegur. –Að sjálfsögðu viljum við taka þátt í því að spara á erfiðum tímum og allir þurfa að líta til hagræðingar en best færi á því að margar hendur vinni létt verk, segir Jón. Veruleg hækkun húsaleigugjalda skólans varð snemma á þessu ári án þess að auknar fjárveitingar fylgdu með frá hinu opinbera, en alls nam hækkunin um 21 milljón króna á ársgrundvelli, og má þar nefna að leiga á húsnæði heimavistar hækkaði um 95% á milli ára, en um 37% vegna Bóknámshússins og Verknámshússins. Þá fékk skólinn ekkert framlag vegna leigu á íþróttahúsi, sundlaug og reiðhöll á þessu ári og því næsta eins og fram kemur í frumvarpinu.
–Þetta sýnir að ekki dugar hagræðing í rekstri utan launaliðar svo sem með því að draga eingöngu úr pappírsnotkun eða minnka kaup á bréfaklemmum og frímerkjum, segir Jón og bætir við, að af illri nauðsyn varð að bregðast við í tíma með uppsögnum á stöðuhlutfalli sem má afturkalla ef forsendum verður breytt fyrir fjárveitingum til skólans. Jón gerir sér vonir um að þessi fundur hafi skilað árangri og stjórnvöld muni endurskoða forsendur í frumvarpi til fjárlaga og kynni þá að koma til þess að uppsagnir yrðu dregnar til baka.
Ráðherra lauk heimsókn sinni skömmu fyrir hádegi með skoðunarferð um húsnæði skólans. Stjórnendur, starfsfólk og nemendur FNV kunna ráðherra bestu þakkir fyrir góða heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.