Menn sáu rautt í Lengjubikarnum
Það var skemmtileg nýbreytni að mæta á fótboltaleik á Sauðárkróksvöll í byrjun mars en sú var raunin í dag. Það voru lið Tindastóls og Reynis Sandgerði sem leiddu saman gæðinga sína í Lengjubikarnum og lengi vel leit út fyrir að lið Tindastóls færi með öruggan sigur af hólmi. Það reyndist hins vegar seigt í Sandgerðinum og jöfnuðu þeir leikinn, 3–3, með afar umdeildu marki þegar skammt var eftir. Sáu þá margir Tindastólsmanna rautt en aðeins einn fékk að líta rauða spjaldið hjá dómaranum.
Hér í denn, þegar malarvellir voru í hverju þorpi, þá var gjarnan æft og keppt á malarvellinum á Króknum, að minnsta kosti á þeim parti vallarins sem ekki var undir meiriháttar snjósköflum. Æfingaleikir voru spilaðir með vorinu og þá skreyttu malarvellina stundum tilheyrandi drulludý og/eða svellbunkar. Þegar vallarsvæðið á Króknum var tekið í gegn fyrir Landsmótið 2004 þá varð malarvöllurinn úr sögunni og síðan hafa stuðningsmenn Tindastóls og leikmenn þurft að fara út fyrir héraðið til að spila æfingaleiki á veturna og vorin. Þetta var því í fyrsta sinn í rúm 15 ár sem leikið er á Sauðárkróksvelli á þessum árstíma.
Gervigrasvöllurinn var iðagrænn í dag en umkringdur nýfallinni mjöll. Tindastólsmönnum virtist líka það vel að smeygja sér í takkaskóna og spila á eigin heimavelli því þeir tóku forystuna í fyrri hálfleik. Sverrir Hrafn skoraði þá gott skallamark eftir laglega sókn Tindastóls og staðan 1-0 í hálfleik. Stólarnir voru áfram sprækari í byrjun síðari hálfleiks og áttu nokkrar laglegar sóknir. Benni gerði mark úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik og gestirnir gerðu síðan sjálfsmark og staðan 3-0 þegar hálftími var eftir af leiknum. Eftir það var eins og Tindastólsmenn ætluðu að róa leikinn og ákafinn í leik liðsins dvínaði. Þetta nýttu Sandgerðingar sér og þeir minnkuðu muninn með skallamarki eftir aukaspyrnu. Þeir bættu við marki um tíu mínútum síðar og fylltust sjálfstrausti. Staðan 3-2.
Nokkur harka hljóp nú í leikinn og þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum straujaði Ísak Sindra Ómarsson ekki langt frá vinstri hornfána. Sindri kom þó sendingunni fyrir markið áður en Ísak lenti á honum og boltinn sveif með glæsilegum snúningi yfir Jonathan Faerber í marki Tindastóls og í markið. Nú varð nokkur reykistefna því leikmenn Tindastóls töldu að dómarinn hefði flautað aukaspyrnu á Ísak og markið ætti því ekki að standa. Dómari og aðstoðarmaður komust að þeirri niðurstöðu að markið skildi standa og þá trompuðust Tindastólsmenn og endaði með því að dómarinn sýndi Konna rauða spjaldið. Fleiri leikmenn Stólanna máttu reyndar prísa sig sæla með að fá ekki að líta annað hvort spjaldið í æsingnum og héldu sumir leikmenn áfram svívirðingum í garð dómara að leik loknum. Þó það sé gott að sjá að leikmönnum standi ekki á sama um úrslitin í leiknum þá var allt og langt gengið í kjafthætti og vonandi átta leikmenn sig á því. Þetta var ekki boðlegt.
Niðurstaðan því svekkjandi jafntefli fyrir Stólana en þetta er annar leikur liðsins í Lengjubikarnum. Tindastólsliðið tapaði gegn 2. deildar liði Kára um síðustu helgi en þar reyndist einmitt síðasti hálftíminn afdrifaríkur, en lið Kára gerði þá þrjú mörk og vann leikinn 4-1.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.