Með fáránlegt brúnkufar eftir selatalningar sumarsins
Starfsmenn Selasetur Íslands á Hvammstana tóku á vordögum upp á því að skila inn vikulegu starfsmannabloggi þar sem starfsmenn lýsa starfi sínu og áhugaverðum rannsóknum sem þeir vinna að. Blogg vikunnar er frá Helga Guðjónssyni, líffræðinema og er nokkuð skemmtilegt aflestrar.
Helgi Guðjónsson líffræðinemi bloggar:
Hefðbundinn dagur hjá mér er þannig að ég fer út í Illugastaði og kem mér notalega fyrir við klett sem hefur gott útsýni yfir skerin þrjú. Þar er ég svo í tvo klukkutíma og geri svokallaðar punktamælingar, sem er þannig að á 15 mínútna fresti tel ég selina á hverju skeri, tel túristana sem eru að skoða selina og að lokum þá skoða ég aftur yfir skerin og skrái niður hvað selirnir eru að gera. Þrisvar sinnum í viku fer ég því næst í Hindisvík og að Hvítserki og tel selina þar, þvínæst taka við tveir tímar í viðbót á Illugastöðum þar sem ferlið er endurtekið.
Þessar rannósknir eru gerðar til þess að kanna hvaða áhrif túristar hafa á selina bæði til skamms og langs tíma. Þessi gögn geta t.d gefið okkur hugmynd um hvort að mikið áreiti frá túristum valdi því að selirnir velji sér kanski annan stað til að hafa látur.
Hindisvík hefur verið lokuð fyrir ferðamönnum nú annað árið í röð og hefur Selasetrið verið í samstarfi við landeigendur þar um að fá
að nota það í rannsóknum okkar á selunum. Er ætlunin að fylgjast áfram með þessu svæði og kanna hvort að þeim fjölgi nú eftir að þessu vinsæla útivistarsvæði hefur verið lokað.
Það hefur verið frekar kalt sumar hérna úti á nesinu og hef ég sjaldan komist úr föðurlandinu. Það var þó ein mjög góð vika þar sem ég gat verið í kvartsbuxum og skilaði það sér í frekar skondnu brúnkufari þar sem ég var alltaf í háum gönguskóm og er ég því brúnn á hálfum sköflungnum og allt að því glær þar fyrir neðan og er því frekar skondið að vera sokkalaus í sandölum.
Svona til gamans þá reiknaði ég saman hversu marga seli ég hef talið það sem af er sumrinu og mun það vera 30341 og já þetta eru nokkrir selir. Þar sem ég fer út á hverjum degi þá er þetta fljótt að safnast upp. En þannig að maður fari yfir í aðeins vitrænni gögn þá er mesti fjöldi sela sem ég hef talið á Illugastöðum: 120 , Hindisvík: 188 og við Hvítserk í Sigríðstaðaós: 385. Það getur vel verið að þetta muni breytast núna þegar líður á sumar og þegar fengitíminn fer af stað.
Einnig hef ég gert það að hobbíi mínu að fylgjast sérstaklega með nokkrum útselum sem ég hef verið að sjá á Illugastöðum og er hver hreyfing þeirra vandlega skráð niður. Í fljótu bragði eru útselirnir stærri og með öðruvísi höfuðlag heldur en landselurinn sem hér er aðalega.
En já endilega kíkið við úti á Illugastöðum þar sem ég ver mestum vinnutíma mínum og heilsið upp á mig ef þið eigið leið hjá.
Helgi Guðjónsson – Selatalningamaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.