Markaveisla á Sauðárkróksvelli

Stólastelpur að leik loknum. Mynd: Þórey Gunnarsdóttir.
Stólastelpur að leik loknum. Mynd: Þórey Gunnarsdóttir.

Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls nældu sér í þrjú örugg stig á laugardaginn með 7-2 sigri á sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis. Murielle Tiernan skoraði fjögur mörk, Krista Sól Nielsen var með tvö mörk og Vigdís Edda Friðriksdóttir skoraði eitt mark.

Fyrsta mark heimamanna kom á þriðju mínútu þegar Murielle Tiernan skoraði. Tíu mínútum seinna kom svo annað mark Tindastóls þegar Vigdís Edda kom boltanum í netið. Fjarðab/Höttur/Leiknir skoruðu svo á 21. mínútu. Stólakonur bættu svo við þriðja markinu sínu á 25. mínútu með marki Murielle Tiernan og stuttu síðar bætti Krista Sól við fjórða marki heimamanna. Staðan í hálfleik 4-1.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Fjarðab/Höttur/Leiknir sitt annað mark. Murielle Tiernan bætti svo við sínu þriðja marki á 56. mínútu og því fjórða á 62. mínútu. Síðasta mark leiksins kom svo í uppbótartíma á 93. mínútu með öðru marki Kristu Sólar. Markmaður Fjarðab/Hattar/Leiknir fékk að líta sitt annað gula spjald eftir groddalega tæklingu á Kristu Sól eftir að hún kom boltanum í netið. Lokatölur 7-2 fyrir heimamönnum. 

Á Facebook – síðu Tindastóls kemur fram að sigurinn hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig en tveir öflugir leikmenn Tindastóls meiddust og verða frá í einhvern tíma. Ólína Sif Einarsdóttir tognaði aftan á læri og Krista Sól verður frá í 1-2 vikur.

Næsti leikur stelpnanna fer fram á miðvikudaginn gegn Augnabliki í Kópavogi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir