Margrét Rún, Bessi og Domi skrifa undir við Stólana

Margrét Rún við undirskrift samningsins. MYND: TINDASTÓLL.IS
Margrét Rún við undirskrift samningsins. MYND: TINDASTÓLL.IS

Á ágætri heimasíðu Tindastóls segir að unglingalandsliðsmarkvörður Íslands, hin bráðefnilega Margrét Rún Stefánsdóttir, hafi skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Tindastóls og verður því áfram með Stólastúlkum næstu tvö sumur. Þá hafa Eysteinn Bessi Sigmarsson og Juan Carlos Dominguez Requena skrifað undir tveggja ára samning við Stólana.

Margrét er fædd árið 2005 og hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands undanfarin ár og nú nýlega var hún valin í lokahóp U17 ára landsliðsins fyrir undankeppni EM sem fram fer á Írlandi dagana 23. - 29. mars. Margrét á að baki 3 landsleiki fyrir U17 og U16 ára lið Íslands og fjóra leiki fyrir meistaraflokk Tindastóls.

„Mér lýst mjög vel á það,“ segir Margrét í spjalli við Tindastóll.is þegar hún er spurð út í komandi sumar með liði Tindastóls í Lengjudeildinni. „en þetta verður ekki létt sumar hjá okkur í meistaraflokki og þurfum við að leggja okkur allar fram í leikjum ef við viljum sömu úrslit og á tímabilinu 2020. Við erum að byggja aftur upp gott lið og hef ég alla trú á okkur í sumar. Hjá 2. flokki er ég mjög spennt að fá að spila með jafnöldrum, við erum með margar ungar og efnilegar stelpur þar. Við erum að byggja upp lið fyrir sumarið sem gengur ágætlega og er ég bjartsýn,” segir Margrét að lokum en ítarlegra viðtal við hana má finna hér >

Karlalið Tindastóls styrkir sig fyrir sumarið

Eins og sagði í inngangi þá hafa Bessi og Domi skrifað undir samninga við knattspyrnudeild Tindastóls. Bessi er uppalinn Tindastólsmaður, sprækur sóknarmaður, og hefur spilað með liði Drangeyjar á Króknum, Samherjum í Eyjafirði, liði Kormáks/Hvatar og Tindastól. Alls staðar hefur kappinn skorað – nema með liði Stólanna en vonandi lagar hann það í sumar.

Domi kemur frá Spáni og leikur sem varnarmaður. Hann kom hingað til lands árið 2018 og spilaði fyrst með Kormáki/Hvöt. Hann gekk síðan til liðs við Tindastóls árið 2019 en staldraði stutt við en í fyrra gekk hann til liðs við Tindastól á ný. Hann hefur leikið 32 leiki fyrir Kormák/Hvöt og 18 leiki fyrir Tindastól. „Domi hefur komið sér vel fyrir á Króknum, kominn með konu og börn og því er óhætt að kalla hann heimamann,“ segir í frétt á Tindastóll.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir