„Margir yngri flokka okkar í hópi þeirra bestu“
Feykir hafði samband við Þórólf Sveinsson (Tóta), yfirþjálfara yngri flokka Tindastóls, og fékk hann til að segja aðeins frá starfinu og gengi yngri flokka félagsins í ár. Þess má geta að Tindastóll, Hvöt og Kormákur tefla fram sameiginlegum liðum í 3. og 4. flokki drengja og stúlkna og raunar í 2. flokki líka – en 2. flokkur karla og kvenna er ekki á borði Tóta svo sagt verður frá afrekum þeirra síðar.
„Það er búinn að vera mikill uppgangur í yngri flokkum okkar í vetur og sumar og höfum við verið að nálgast bestu lið landsins í mörgum flokkum,“ segir Tóti. „Það er búið að vera ótrúlega gaman að sjá hvað við erum með flotta krakka í öllum flokkum sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram og njóta þess að æfa og spila.
3. fl. kvenna hefur í sumar verið í næst efstu deild sem sýnir hvað þar eru flottar stelpur á leiðinni upp. Í 3. flokki var tekið upp nýtt fyrirkomulag þar sem spilað er í fjórum riðlum sem eru með átta lið í hverjum riðli. Stelpurnar hafa alltaf verið öruggar með sætið í þessum B riðli (næst efstu deild) og í hópi tíu bestu liðanna þegar horft er yfir sumarið.
3. fl. karla hefur verið vaxandi í sumar og eru strákarnir að bæta sinn leik jafnt og þétt. Það hafa verið margir strákar úr 4. fl. að spila leiki í þessum flokki í sumar og verið að standa sig frábærlega. Liðið hefur verið að spila í neðsta riðli sem segir ekki allt því það eru spennandi strákar að koma upp úr þessum flokki. 3. fl. hefur verið fámennur og hefur það verið okkar helsta vandamál.
4. fl. kvenna hefur verið á miklu flugi í sumar og unnu B deildina með yfirburðum. Þær eru núna að fara spila við Stjörnuna í undanúrslitum miðvikudaginn 7. september á Sauðárkróksvelli kl. 17:00. Úr þessum flokki hafa þrjár stelpur verið fastar í hóp KSÍ í hæfileikamótun sem er frábært og sýnir að við erum að koma með flotta krakka upp úr okkar yngri flokkum.
4. fl. karla hefur líkt og stelpurnar átt frábært sumar. Strákarnir eru búnir að sýna og sanna að þarna er á ferð öflugur kjarni stráka sem er klár í að spila við þá bestu innan skamms, þeir voru mjög óheppnir með að komast ekki upp úr sinni deild sátu eftir á markatölu eftir aðeins tvo tapleiki í sumar. Svekkjandi niðurstaða en þeir eiga eftir að komast í hóp þeirra bestu án vafa.“
5. flokkur drengja komst í undanúrslit
Tóti segir að samstarf Tindastóls/Hvatar/Kormáks hafi gengið vel eins og sést en 3. fl. karla/kvenna og 4. fl. karla/kvenna hafa verið með sameiginleg lið í sumar eins og fram kom í inngangi. Hann segir að vissulega væri óskandi að krakkarnir gætu æft oftar saman og það þurfi að reyna að bæta það. Hann bætir við að samstarfið hafi skilað sér í enn betri liðum á vellinum. „Krakkarnir smellpassa saman og er komin öflug liðsheild í alla flokka.“
Þá segir Tóti að 5. fl. karla hjá Tindastóli hafi sömuleiðis átt magnað sumar. „Þeir unnu sinn riðil á Íslandsmótinu og fóru í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsti leikur í umspilinu var við ÍBV og unnu okkar menn öruggan 9-2 sigur. Næst var komið að mjög sterku liði ÍA sem hafði einungis tapað einum leik í sumar á Íslandsmótinu. Okkar menn voru ekki hættir og unnu frábæran sigur 4-3 og tryggðu sér um leið leik í undanúrslitum við ógnarsterkt lið FH sem ekki hafði tapað leik í sumar.Strákarnir okkar mættu í Hafnarfjörðinn óhræddir og sýndu að þeir eru klárir að keppa við þá bestu. Þeir lögðu sig alla fram og voru sér og félaginu til mikillar fyrirmyndar með dugnaði og hugrekki sem gerði FH erfitt fyrir. Hafnfirðingar höfðu þó betur, 7-2, niðurstaða sem var svekkjandi enda ætluðu strákarnir sér alla leið.“
5. flokkur kvenna er einnig í góðum málum. „Stelpurnar voru óheppnar að komast ekki í umspil um að komast í úrslitakeppnina og vantaði smá heppni. Liðið var mjög óheppið með jafntefli í lokaleik en sigur hefði komið þeim í umspil um að komast í úrslitakeppnina. Þarna eru frábærar stelpur á leiðinni sem verður gaman að fylgjast með á vellinum.“
Bjart yfir fótboltanum
Tóti segir að aðrir flokkar Tindastóls, 6.-7. fl. karla og kvenna, hafi einnig verið á fullu í sumar. „Við erum búin að fara með þessa flokka á öll stærstu mótin í sumar og sama sagan þar; okkar krakkar eru alltaf að standa sig frábærlega og klár að keppa við þá bestu,“ segir yfirþjálfarinn en bætir við að auðvitað séu það ekki alltaf úrslitin sem skipta mestu máli hjá þeim yngstu.
„Það er bjart yfir fótboltanum og ætlum við að efla starfið enn meira í vetur og næsta sumar,“ segir Tóti að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.