,,Mamma og föðuramma kenndu mér fyrstu handtökin,,
Helga er Skagfirðingur í húð og hár og býr á Sauðárkróki með manninum sínum. Þau eiga fjögur börn, þrjú tengdabörn og fimm barnabörn.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Mamma og föðuramma kenndu mér fyrstu handtökin. Þá hef ég verið 6-7 ára gömul. Fyrstu viðfangsefnin voru áteiknaðar strammamyndir og dúkur með kontorsting. Í grunnskóla var mikil og góð handavinnukennsla, bæði í Hróarsdal, þar sem bæði strákar og stelpur unnu jafnt að saumum og smíðum, og svo þegar ég kom í skólann á Króknum var mjög góð kennsla líka. Ég hef prófað alls konar handavinnu, t.d. macramé hnýtingar, steinaðar myndir, keramikmálun, postulínsmálun, perlusaum og bucillu. Ég hef sótt námskeið og svo nota ég internetið mikið til að læra nýja tækni. Svo er ég í handavinnuhópi eldri borgara hér á Króknum og þar hef ég lært ýmislegt af okkar yndislegu leiðbeinendum.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ætli það sé ekki skemmtilegast að prjóna en það er samt svo margt sem er skemmtilegt eins og t.d. hekl og útsaumur sem er næst á vinsældalistanum.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er yfirleitt með nokkur verkefni í gangi í einu. Ég er að sauma dúk með harðangursútsaumi, ég er líka að prjóna borðatuskur, þær eru svo þægilega litlar til að hafa sem handavinnu á ferðalögum/í útilegu. Svo eru ýmsar jólagjafir á dagskrá sem ég get ekki sagt frá núna.
Hvar færðu hugmyndir? Ég er í nokkrum handavinnuhópum á Facebókinni, íslenskum, norskum og sænskum. Svo fæ ég líka hugmyndir frá Sigríði dóttur minni.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Það er brúðarsjal sem ég prjónaði fyrir tengdadóttur mína.
Eitthvað sem þú vilt bæta við? Handavinna veitir mér slökun og hugarró. Svo er gaman að búa til flíkur og hluti sem fjölskylda og vinir vilja nota og njóta.
Áður birst í tbl. 34 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.