Málþing til heiðurs Jóni Bjarnasyni
Vorið 1981 urðu kaflaskil í sögu landbúnaðarmenntunar á Íslandi þegar Jón Bjarnason frá Bjarnarhöfn var fenginn til að endurreisa Bændaskólann að Hólum í Hjaltadal. Skólinn var stofnaður 1882 en hafði ekki starfað um hríð þegar hann var ráðinn. Jón flutti þangað með konu sinni, Ingibjörgu Kolka, og fjórum börnum, en tvö bættust í hópinn á Hólaárunum. Jón lét af skólastjórn árið 1999.
Engum blandast hugur um hve mikið þrekvirki Jón vann á skólastjóraárum sínum á Hólum. Staðurinn var í niðurníðslu, byggingar, ræktun og skólastarf. Á fáum árum risu ný mann-virki og eldri byggingar voru endur-bættar. Dómkirkjunni og kirkjustarfi var sýndur mikill sómi. Aðsókn að Hólaskóla varð mikil og samhliða aðlagaðist námið að breyttum aðstæðum í samfélaginu. Nám í fiskeldi, hestamennsku og síðar ferðamálum litu dagsins ljós. Þetta eru þær greinar sem Háskólinn á Hólum byggir nú háskólanám sitt á og eru mikilvægar atvinnugreinar um land allt, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Verður að skoða uppbygginguna á Hólum í ljósi þess takmarkaða fjármagns sem í boði var opinberum stofnunum og aðstæðum í landbúnaði. Með framsæknum hætti náði Bændaskólinn að þróast í háskóla og fékk löggildingu sem slíkur árið 2007.Dugnaður Jóns, framsýni og metnaður fyrir hönd staðarins var slíkur að starfsfólk og nemendur hrifust með honum og Ingibjörgu, sem helguðu sig Hólum nótt og dag. Fyrrum nemendum og öðrum gestum var fagnað af rausn. Þeir fundu sig komna “Heim að Hólum”. Enginn vafi er að þær undirstöður sem hann treysti hafa haldið nafni Hólastaðar á lofti og munu gera um ókomna tíð.
Nokkrir vinir og velunnarar Jóns og Háskólinn á Hólum hafa ákveðið að efna til málþings heima að Hólum honum til heiðurs þann 16. nóvember 2023 og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 16:00 því Jón verður áttræður í desember 2023. Efnistök á málþinginu verða með skírskotun til sögu skólahalds á Hólum. Umfram allt verður sjónum beint að þeim verðmætum sem háskóli í dreifbýli býr yfir og tækifærum sem nábýli skólans við náttúru, mannauð og atvinnulífið bjóða fram. Til að fjalla um þessi málefni er fengið kunnáttufólk á ýmsum sviðum. Markmiðið er að málþingið verði gagnlegt en ekki síður skemmtilegt og skilji eftir bæði spurningar og svör.
Kaffiveitingar og hádegismatur verður í boði fyrir gesti. Velkomin heim að Hólum. / fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.