Málefni heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki
Síðustu daga hafa hlutirnir gerst hratt og mikil óvissa skapast um hvernig staða Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki (HS) verður í framtíðinni. Ráðuneyti heilbrigðismála kynnti þær breytingar að sameina ætti heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni innan hvers heilbrigðisumdæmis. Ætla mætti að megin ástæða þessara breytinga sé efnahagsvandi þjóðarinnar og eflaust skiptir hann máli, en upphafið má rekja til setningu reglugerða sumarið 2007.
Breytingarnar eiga sér stoð í lögum nr. 40 frá 2007 um heilbrigðisþjónustu en þau tóku gildi 1. september það ár. En í lögunum er einnig kveðið á um samráð. Í öðrum kafla er fjallað um “Skipulag heilbrigðisþjónustu” í fimmtu grein stendur segir m.a. “Ráðherra getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæmis með reglugerð”. Sveitarstjórn hefur kallað eftir þessu samráði en við því hefur ráðuneytið ekki brugðist. Reglugerðin var sett án nokkurs samráðs við Sveitarfélagið Skagafjörð. Ég ætla því hér að rekja samskipti sveitarfélagsins og ráðuneytisins í grófum dráttum.
Í ágúst 2007 Var sett reglugerð um heilbrigðisumdæmi og fékk byggðaráð fregnir af því frá starfsmönnum HS og kom framkvæmdastjórnin til fundar 13. september 2007.
Á fundi Byggðarráðs 20. september 2007 var krafist skýringa á því hvers vegna horfið væri frá því að Norðurland vestra yrði sér heilbrigðisumdæmi.
29. nóvember 2007 var kynnt í byggðaráði svarbréf ráðuneytisins. Þar kemur fram að megin ástæðan fyrir því að Norðurland vestara varð ekki sér umdæmi sé afstaða Húnaþings vestra sem telur eðlilegra að vera í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands.
13. mars. 2008 kynnir framkvæmdastjóri HS sveitarstjóra, ákvörðun heilbrigðisráðherra þess efnis að um næstu áramót verði heilbrigðisstofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi sameinaðar undir eina yfirstjórn. Kom hann á framfæri ósk frá nefnd þeirri á vegum ráðuneytisins sem fjalla á um málið, að hún fái að hitta fulltrúa sveitarfélagsins að máli föstudaginn 14. mars n.k. á Sauðárkróki. Fulltrúar byggðaráðs sóttu fundinn þar sem krafist var samráðs og því lofað.
Ekkert heyrðist frá ráðuneytinu þannig að 5. júní 2008 samþykkti Byggðaráð eftirfarandi: “Með vísan til umræðna um samráð á fundi með nefnd heilbrigðisráðuneytisins um málið samþykkir byggðaráð að óska eftir fundi með heilbrigðisráðherra og nefndinni sem fyrst.”
Í júlí 2008 Samþykkti ráðherra reglugerð um sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi og Sauðárkróki. Ráðuneytið hafði ekki samráð við Sveitarfélagið Skagafjörð.
Tveimur mánuðum síðar og eftir margar ítrekanir fékk byggðaráð loks fund 1. september 2008 í Heilbrigðisráðneytinu. Þar komu fulltrúar ráðsins mótmælum sínum á framfæri. Fulltrúar ráðuneytisins töldu að fundurinn í mars hefði verið samráð og sögðu að frekara samráð yrði haft sem ekki varð raunin.
Í desember sl. hefur framkvæmdastjóri HS samband við undirritaðan og upplýsti um frétt á vef morgunblaðsins laugardaginn 13.des. um að sameina ætti allar stofnanir innan hvers heilbrigðisumdæmis á landsbyggðinni.
Byggðráð óskaði strax eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins og var hann haldinn 19. desember. Fulltrúar byggðaráðs ásamt fulltrúa heilbrigðisstofnunarinnar hittu þingmenn. Stuttu fyrir fundinn komu skilaboð frá ráðherra um að hann vildi hitta okkur fyrir þingmannafundinn.
Upplýsti ráðherra um skyldur hans að skera niður um rúma 6 milljarðar króna í heilbrigðiskerfinu. Taldi hann það unnt án þess að skerða þjónustu.
Mótmæltum við vinnubrögðum og sambandsleysi og gengum eftir því hvort búið væri að ákveða að búa til eina stofnun. Taldi ráðherra að það yrði gert á næstu dögum og upplýsti að bréf yrði sent varðandi málið. Það bréf mun vera á leiðinni þegar þetta er ritað. Fulltrúar sveitarfélagsins lýstu því þá að sveitarfélagið væri reiðubúið að taka yfir rekstur HS m.v. þau fjárlög 2009 og tók ráðherra jákvætt í að sveitarfélagi tæki yfir reksturinn.
Nokkrum mínútum síðar á fundi með þingmönnunum upplýstu þingmenn er sæti eiga í fjárlaganefnd að í texta með fjárlagafrumvarpinu, sem nýbúið var að samþykkja. kæmi fram að gert væri ráð fyrir sameiningu í eina stofnun. Kom það öðrum þingmönnum á óvart sem og okkur hinum. Óskuðum við liðsinnis þingmanna við að koma í veg fyrir þessar breytingar og vonumst við enn til að þeir beiti sér.
30. desember ákvað byggðaráð að taka af allan vafa og sendi ráðuneytinu formlegt erindi þar sem farið var fram á viðræður um yfirtöku á rekstrinum.
Það var síðan ítrekað 7. janúar sl. ásamt því að krafist var upplýsinga um breytingarnar.
Eins og sjá má þá hafa samskiptin við ráðuneytið ekki verið með ásættanlegum hætti. Spyrja má hvort ráðuneytið hafi farið að lögum hvað varðar ákvæði um samráð?
Þann 7. janúar átti ég nokkur símtöl við ráðherra um málefni HS. Ráðherra ítrekaði að ekki væri hugmyndin að skerða þjónustu. Hann upplýsti einnig að verið væri að ganga frá skipan í starfshóp sem fjalla ætti um skipulag heilbrigðisþjónustunnar innan umdæmisins og í þeim hópi
yrði einn úr framkvæmdastjórn HS. Þá yrði ekki seinna en í byrjun febrúar farið í viðræður við sveitarfélagið um mögulega yfirtöku á rekstri.
Ég lýsti m.a. mikilli óánægju með hvernig staðið væri að málum. Við sæum fram á fækkun starfa og að frábær þjónusta væri í hættu. Lýsti ég reiði Skagfirðinga og ítrekaði að við vildum taka yfir stofnunina meðan hún væri í heilu lagi, ekki þýddi að hirða úr henni bestu bitana og skilja restina eftir.
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) hefur verið stór hluti umræðunnar. Ég vil taka fram að ég tel að Skagfirðingar njóti góðs af frábæru starfsfólki FSA og sjúkrahúsið sé mikilvægur hlekkur í öryggisneti Norðlendinga. Persónulega tel ég að ríkisvaldinu beri skylda til að styrkja FSA sem fremsta sjúkrahúsi landsins utan Höfuðborgarinnar. Áhyggjum okkar er því ekki beint gegn starfsfólki FSA. Áhyggjurnar snúast um skipulag og framkvæmd þjónustunnar í framtíðinni.
Það er ljóst að það er ögurstund í Skagafirði varðandi þessa mikilvægustu stofnun héraðsins. Mörgum spurningum er ósvarað og því verður mikil óvissa næstu vikur. Sveitarstjórn hefur verið einhuga í þessu máli og hefur reynt að fylgja málinu eftir og hafa áhrif á það, formlega og óformlega.Ég minni á að gert er ráð fyrir að ný stofnun verði til í mars. Fram að því höfum við tíma til að hafa áhrif á framtíð HS. Við í sveitarstjórninni munum þrýsta á þingmenn um aðstoð og ég bið ég Skagfirðinga alla að gera það einnig.
Ég ítreka vilja sveitarstjórnar til að taka yfir reksturinn til að halda í störfin og þjónustuna. Þetta er eitthvert stærsta mál sem við höfum horft framá að þurfa að leysa. Við munum fara í viðræður við ráðuneytið og treysta þar á þekkingu starfsmanna stofnunarinnar.
Framtíð HS snertir okkur öll. Nú sem aldrei fyrr þarf að sýna samtöðu og einurð sem ég veit að býr í okkur Skagfirðingum. Stöndum saman.
Gunnar Bragi Sveinsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.