Mál Jónu Fanneyjar komið fyrir dómstóla
Jóna Fanney Friðriksdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Blönduósi, hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra á hendur sveitarfélaginu og krefst tæplega 2,3 milljóna króna í miska- og skaðabætur vegna meintra brota á jafnréttislögum.
Krefst Jóna Fanney þess fyrir dómi að Blönduósbær viðurkenni að sá munur sem var á launum hennar þegar hún var bæjarstjóri, og launum núverandi bæjarstjóra, Arnars Þórs Sævarssonar, sé ólögmætur og brot á jafnréttislögum.
Stefnan var lögð fram til kynningar á síðasta bæjarráðsfundi Blönduóssbæjar 6. maí síðastliðinn, en sveitarfélagið tók við stefnunni formlega þann 14. apríl.
Jóna hafði áður boðið sátt í málinu gegn því að sveitarfélagið greiddi málskostnað auk hálfrar milljón í bætur. Sveitarfélagið hafnaði því og því er málið nú komið fyrir dómsstóla.
Arnar Þór er þriðji bæjarstjóri Blönduósbæjar á kjörtímabilinu en í veikindaleyfi Jónu Fanneyjar árið 2007 var ráðinn afleysingarbæjarstjóri, Hulda Ragnheiður Árnadóttir sem var með 900 þúsund í mánaðarlaun og gengdi stöðu fjármálastjóra samhliða stöðu bæjarstjóra á móti 750 þúsund króna mánaðarlauna Arnars Þórs.
Jóna Fanney situr nú ein í minnihluta í bæjarstjórn og er utan nefnda.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.