Magnaður sigur á Magna lyftir Stólunum úr fallsæti
Tindastóll gerði góða ferð á Grenivík í dag en þar unnu strákarnir gríðarlega mikilvægan sigur á liði Magna í botnslag 2. deildar. Lokatölur urðu 1-2 og gerðu gömlu jaxlarnir Bjarki Már og kóngurinn Kristmar Geir mörk Stólanna. Á sama tíma gerði Hamar jafntefli við BÍ/Bolungarvík og þar með skutust Tindastólsmenn upp í 10. sæti.
Tindastólsmenn voru mun sterkari í leiknum og náðu heimamenn sér aldrei á strik. Stólarnir komust yfir strax á 5. mínútu en þá átti Sævar aukaspyrnu sem rataði á kollinn á Bjarka Má sem skilaði boltanum í markið. Stólarnir hófu síðari hálfleik vel en náðu ekki að bæta við marki og það var því eins og köld vatnsgusa þegar heimamenn jöfnuðu á 64. mínútu eftir ágæta sókn. Stólarnir bitu á jaxlinn og jöfnuðu strax í kjölfarið en þar var sem fyrr segir að verki Kristmar Geir. Magni fékk eitt gott færi það sem eftir lifði en annars voru það Tindastólsmenn sem voru aðgangsharðari og unnu sanngjarnan sigur.
Í lokaumferð 2. deildar sem fram fer um næstu helgi fá Stólarnir lið Blönduósinga í heimsókn og með sigri ætti sæti í deildinni að vera tryggt - nema Hvergerðingar sigri sinn leik með 15 fleiri mörkum en Stólarnir. Það er því allt útlir fyrir að þau verða spennandi síðustu andartökin í fótboltanum þetta sumarið!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.