Maddömukot flutt af sínum gamla stað - Framtíð hússins enn óráðin

Mörgum þykir vænt um Maddömukot og óska þess að það fái verðugan sess í útbæ Sauðárkróks í framtíðarskipulagi gamla bæjarins en það var flutt til í síðustu viku. Mynd: PF
Mörgum þykir vænt um Maddömukot og óska þess að það fái verðugan sess í útbæ Sauðárkróks í framtíðarskipulagi gamla bæjarins en það var flutt til í síðustu viku. Mynd: PF

Fyrir helgi var Maddömukot á Sauðárkróki tekið af sínum gamla stað, Aðalgötu 16c, og komið fyrir á Tengilsreitnum utar í bænum þar sem það bíður endanlegrar staðsetningar. Að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra Skagafjarðar, er framtíð hússins enn óráðin en unnið er við deiliskipulag norðurhluta Sauðárkróks þar sem horft er til mögulegrar framtíðarnotkunar lóðarinnar Aðalgötu 24, þangað sem húsið var flutt.

Mikið um að vera í Maddömukoti á aðventu 2017, á 70 ára afmæli Sauðárkróks.Húsið á sér langa sögu, byggt á seinni hluta 19. aldar og því aldursfriðað. Nafnið Maddömukot festist við það þegar félagsskapurinn Maddömurnar fengu það til afnota árið 2009 og gerðu upp en í frétt Feykis frá þeim tíma segir að þá hafi það gengið undir nafninu Svarta húsið á Sauðárkróki. Þá segir á heimasíðu Héraðsskjalasafns Skagfirðinga að þetta hús hafi einnig verið kallað Hofsbúðir og það nafn talið tilkomið vegna þess að húsið stóð aftan við húsið Hof, sem Carl Knudsen kaupmaður átti, og tilheyrt því.

Maddömurnar Karlotta Sigurðardóttir, Friðbjörg Vilhjálmsdóttir (Bíbí), og Guðný Björnsdóttir. Mynd: PF„Maddömukot er byggt árið 1887 samkvæmt fasteignamati og því aldursfriðað hús. Ef skoðaðar eru ljósmyndir frá því fyrir aldamót má sjá að tveir skúrar stóðu þar sem lóðin Aðalgata 16c er í dag. Samkvæmt brunavirðingum frá 1916-1917 voru þessir tveir skúrar teknir niður og nýtt hús reist á því svæði. Húsið er því talið hafa verið byggt á þessum árum. Húsið var til að byrja með nýtt sem fjós, hesthús og geymsla en gegndi síðar meir ýmsum hlutverkum. Mjög líklegt verður að teljast að efni úr skúrunum tveimur hafi verið nýtt í húsið og því sé hluti þess frá því um 1887-1888. Það myndi einnig skýra að einhverju leyti útlit hússins sem er ekki að öllu leyti samhæft,“ segir Sigfús og bendir á að í húsakönnun frá 2018 fær byggingin miðlungs varðveislugildi sem byggir fyrst og fremst á aldri hússins.

Víkur fyrir bílastæði

Ástæðuna fyrir flutningi hússins segir Sigfús vera þá að í nóvember 2021 hafi Kaupfélag Skagfirðinga sótt um lóðina Aðalgötu 16c til að bæta aðgengi að gistiheimili sínu við Aðalgötu 16b. Við nánari eftirgrennslan um aðgengið hafi komið fram að ætlunin væri að útbúa bílastæði fyrir fatlað fólk og merkja þau sem slík. Í janúar í fyrra samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að úthluta lóðinni til KS staðfest í sveitarstjórn skömmu síðar.

Maddömukotið víkur fyrir bílastæðum sem fyrirhuguð eru á lóðinni. Mynd: Skagafjordur.is.„Í erindinu kom fram að ef fallist yrði á þetta myndi Kaupfélag Skagfirðinga sjá um og kosta flutning Maddömukots af lóðinni. Beiðninni var vísað frá skipulags- og byggingarnefnd til byggðarráðs sem er jafnframt stjórn eignasjóðs Skagafjarðar, sem er eigandi hússins. Erindið fór einnig til umsagnar atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar, m.a. hvað varðar mögulegan flutning og not hússins, m.t.t. verndarsvæðis í byggð og starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga,“ útskýrir Sigfús.

Hann segir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd hafa tekið vel í hugmyndir um flutning Maddömukots af núverandi lóð og að höfðu samráði við forstöðumenn Byggðasafns Skagfirðinga og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga hefði nefndin lagt til að skoðað yrði að flytja húsið á Tengilsreitinn, Aðalgötu 24. „Jafnframt benti nefndin á að skylt væri að leita umsagnar Minjastofnunar Íslands þar sem húsið væri aldursfriðað. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við flutninginn. Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd óskaði einnig eftir því að vinna tillögu um heildarhönnun svæðisins og nýtingu Maddömukots í samráði við byggðarráð.“

/PF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir