Lykilleikmenn skrifa undir hjá Tindastól

Hörku lið. Frá vistri: Friðrik Þór, Örvar Freyr, Axel Kára, Helgi Rafn, Viðar, Pétur Rúnar og Ingólfur Jón, formaður deildarinnar. Aðsend mynd.
Hörku lið. Frá vistri: Friðrik Þór, Örvar Freyr, Axel Kára, Helgi Rafn, Viðar, Pétur Rúnar og Ingólfur Jón, formaður deildarinnar. Aðsend mynd.

Á dögunum skrifuðu lykilleikmenn meistaraflokks karla í körfubolta undir nýja samninga við lið Tindastóls fyrir komandi keppnistímabil. Þar með er allri óvissu eytt um þá ungu leikmenn sem ósjaldan hafa verið orðaðir við skólagöngu syðra og liðsskiptingu sem óhjákvæmilega fylgdu með. Óhætt er að segja að hér sé um gleðitíðindi að ræða enda öfluga heimamenn um að ræða sem hafa verið í lykilhlutverki fyrir Tindastól á undanförnum árum.

Í tilkynningu frá körfuboltadeild Tindastóls segir að eftirfarandi leikmenn hafi skrifað undir: 
Pétur Rúnar Birgisson, Viðar Ágústson, Helgi Rafn Viggósson, Friðrik Þór Stefánsson, Axel Kárason, Hannes Ingi Másson og Örvar Freyr Harðarson.

Stjórn KKD Tindastóls lítur björtum augum á komandi keppnistímabil og segir í tilkynningu hennar að vinna sé þegar hafin við að styrkja liðið enn frekar. Hér fyrir neðan er umsögn stjórnarinnar um leikmennina sem nú hafa skrifað undir. 

Pétur Rúnar hefur verið lykilleikmaður Tindastólsliðsins síðustu tímabil og aðal leikstjórnandi liðsins.
Viðar er einn af öflugustu varnamönnum deildarinnar og staðið eins og klettur í öflugri vörn Tindastólsliðsins.
Fyrirliðinn Helgi Rafn er mikilvægur hlekkur í sterkum kjarna Tindastóls og þekktur fyrir mikla baráttu inn sem utan vallar.
Leikur Friðriks Þórs hefur verið mjög stígandi á liðnu tímabili og er hann þekktur fyrir þétta og öfluga vörn.
Víðtæk reynsla Axels hefur reynst vel fyrir Tindastól bæði innan sem utan vallar og kom hann öflugur inn um áramót og þétti leik liðsins vel.
Hannes Ingi er öflugur varnamaður og góð skytta.
Örvar Freyr, sem er fæddur árið 2003, er einn af framtíðarleikmönnum Tindastóls og hefur leikið með U15 landsliði Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir