Lúðasveit í Háa salnum í Gránu á laugardagskvöldið

Lúðar og létt tónlist – ekki víst að þetta verði leiðinlegt.
Lúðar og létt tónlist – ekki víst að þetta verði leiðinlegt.

„Það hefur engin verið að bíða, en þeir eru samt að koma.“ Þannig hefst kynningartexti á viðburðinum Lúðar og létt tónlist sem mun skella á í Gránu nú á laugardagskvöldið. Það er ekki líklegt að það verði átakanlega leiðinlegt þegar lúðarnir láta ljós sín skína í upphafi aðventu en þeir hyggjast telja í nokkur lög og segja sögur af fólki og búfénaði.

Að þessu sinni samanstanda Lúðarnir af þeim Rögnvaldi Gáfaða, Val Frey og Summa sem eru hvað þekktastir fyrir vasklega framgöngu sína í hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum. Þá mæta einnig hinn ótrúlegi Gísli Einarsson, sjónvarpsmaður og hagyrðingur, og Freyr Eyjólfsson, sjónvarps-, tónlistar- og útvarpsmaður, en Freyr er einnig þekktur fyrir sínar frábæru eftirhermur. Semsagt einvalalið.

„Þetta verður kannski ekki vandað, en þetta verður gaman. Grána vill biðjast fyrirfram afsökunar á þessum viðburði, fólk getur óskað eftir endurgreiðslu áður en það kaupir miða,“ segir ennfremur í kynningu.

Það kemur kannski ekki á óvart að enn eru miðar á lausu en miðaverð er kr. 4.900 og forsala er á tix.is. Skemmtunin hefst kl. 20:30 en húsið verður opnað kl. 20:00.

- - - - -
Athugið! Þetta er ekki lúðrasveit með erri. Miðaverð var rangt í fyrstu útgáfu fréttarinnar – beðist er velvirðingar á því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir