Litríkar heimsóknir á öskudegi
Það var létt yfir flestum þeirra sem ráku nefið inn á Nýprent í dag enda litríkt lið á ferð á höttunum eftir sælgæti til að stinga í poka í skiptum fyrir söng. Ekki finnst öllum börnum þetta vera jöfn skipti enda ekkert smá erfitt að syngja fyrir ókunnugt fólk verandi í gervi trúðs, beinagrindar, riddara eða rappara.
En það var engin með eitthvað væl eða vol og fóru velflestir heim úr höfuðstöðvum Feykis namminu ríkari. Það varð líka þeim sem hlýða þurftu á söng barnanna til happs þennan öskudaginn að lagaúrvalið var óvenju fjölbreytt. Ekki er langt síðan að leiðindaseggurinn hann Gamli Nói og beljurnar frá Bjarnastöðum einokuðu pleilista barnanna en nú lá við að Ingó karlinn skyti þeim ref fyrir rass.
Ekki var óalgengt að heyra Vinalistann sunginn og það jafnvel með frumsömdum textum, They Don't Care About Us með Michael Jackson dúkkaði upp ásamt lögum með Veðurguðunum, einn hópurinn söng Bjart er yfir Betlehem og svo mætti lengi telja.
Veðrið var með miklum ágætum á Króknum þannig að ekki hamlaði það gegn söfnuninni. Að sjálfsögðu voru teknar myndir af hópunum og er myndasyrpa á leiðinni á netið. Myndirnar sem fylgja fréttinni voru hins vegar teknar af Binna Júlla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.