Listin að bíða og bíða ekki
Það eru óskráð lög í landinu sem segja að það er bannað öllu skynsamlegu fólki að kaupa sér innbundnar nýjar skáldsögur til einkabrúks. Innbundnar skáldsögur eru eingöngu ætlaðar til gjafa og þá alls ekki til að gefa sjálfum sér. Það er óheilbrigt. Öðru máli gegnir um kiljur, en þær koma vanalega út nokkrum mánuðum eftir að innbundna bókin hefur fengið að láta ljós sitt skína í bókabúðum og stórmörkuðum.
Geyspinn verður nú að gangast við lögbroti. Honum datt á dögunum í hug að gefa sjálfum sér nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Harm englanna, sem er framhaldið af Himnaríki og helvíti. Eftir að hafa velt þessu lögbroti fyrir sér í nokkrar mínútur sá hann glufu á þessum óskráðu lögum sem ætluð eru skynsömu fólki. Þannig að óskynsemin tók völdin. Um leið og heim var komið var plastið rifið utan af bókinni, lagst í sófa og lesið eins og lífið lægi við.
-En bókin? Jú, hún var auðvitað tóm snilld. Segir hér mestmegnis af Stráknum og Póstinum og svaðilförum þeirra á Vetrarströndinni, en ekki síst lífinu og dauðanum. -Yfir einu verður þó að kvarta á þessum tímum ljóshraðans. Bókin skilur lesendur eftir með bauki og bramli í lausu lofti. To be continued nefnilega. Framhaldið og lokaþátturinn í sögunni væntanlegur eftir tvö ár takk fyrir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.