Lilla í æfingahópi U16 kvenna Íslands
Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið 33 stúlkna hóp sem æfir dagana 23.-25. nóvember í Miðgarði í Garðabæ. Ein stúlka frá Tindastóli er í hópnum en það er Sigríður Hrafnhildur Stefánsdóttir. Sjö stúlkur í hópnum koma frá liðum á landsbyggðinni; tvær frá Þór/KA, ein frá Hetti Egilsstöðum, ein frá ÍBV í Eyjum, ein úr Keflavík, ein úr ÍA og loks Lilla Stebba úr Tindastóli.
FH er með fjórar stúlkur í hópnum, Augnablik og Breiðablik úr Kópavogi eiga þrjár stúlkur hvort lið auk Þróttar Reykjavík. Gömlu Reykjavíkurstórveldin Valur, KR, Fram og ÍR eiga engan leikmann í þessum hópi og auðvitað eru mikið fleiri félög í þeim hópi.
Lilla, sem spilar yfirleitt í markinu, er dóttir Hrafnhildar Guðjónsdóttur, félagsráðgjafa hjá sveitarfélaginu Skagafirði, og Stefáns Vagns Stefánssonar, alþingismanns og fyrrum markmanns hjá Stólunum. Lilla er því systir Atla Dags sem líka var markvörður hjá Tindastóli þannig að allt bendir til markmannsgena í ættinni.
Æfingahópur U16 kvenna >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.