Lífsvefurinn - Sjálfstyrkingarnám fyrir konur
Lífsvefurinn er nám fyrir konur sem vilja læra að þekkja sjálfar sig betur og ná að vefa hinn margþætta vef lífsins á markvissan hátt í einkalífi og starfi. Þetta nám hentar afar vel fyrir konur sem í störfum sínum styðja við aðrar konur.
Lífsvefurinn var upphaflega (1991) ofinn af þeim Valgerði H. Bjarnadóttur og Karólínu Stefánsdóttur, sem báðar eru félagsráðgjafar með mikla reynslu af vinnu með konum. Lagt var af stað með 20 klst námskeið sem enn er haldið reglulega á ýmsum vettvangi. Námsefnið hefur vaxið og þróast eins og eðlilegt er, hefur verið hluti af náminu í Menntasmiðju kvenna frá 1994 og stutt útgáfa kennd í hjúkrun í Háskólanum á Akureyri í meira en áratug. Nú er einnig boðið upp á heildstætt 60 klst. (20+40) nám yfir lengri tíma. Námið er nú á vegum Vanadísar( sjá www.vanadis.is ) en er oft haldið í samstarfi við aðra. Valgerður H. Bjarnadóttir er leiðbeinandi.
Um þessar mundir eru tveir framhaldshópar á Akureyri og einn hópur í grunnnáminu. Í Reykjavík er nú einn hópur í grunnnáminu og áætlað er að fara af stað með tvo til þrjá nýja hópa utan Akureyrar í febrúar, annars vegar í Skagafirði og hins vegar á Austurlandi í samvinnu við Þekkingarsetur Austurlands.
Helstu efnisþættir námskeiðsins eru: sjálfsþekking, sjálfsmynd og samskipti; saga, hlutverk og staða kvenna; heilsa kvenna og tilfinningar; draumar og goðsagnir; fyrirmyndir og fordómar.
Markmiðin eru m.a. að: læra að þekkja og virða sjálfa sig; læra að greina og vinna úr því sem er erfitt og setja sér raunhæf markmið; læra leiðir til skapandi samskipta; styrkja jákvæða kvenímynd/sjálfsmynd sína; og þekkja sögu sína, lífsgildi, lífstilgang, rétt sinn og skyldur.
Grunnurinn í Lífsvefnum er heildarhugsun og hringurinn er nýttur sem grunnform. Áhersla er lögð á að kynna þátttakendum skapandi lífssýn og ekki síst nýja sýn á sjálfar sig og tengsl sín við rætur, núverandi umhverfi og framtíð. Í gegnum ýmsa spegla úr draumum og menningarsögu, goðsögnum, þjóðsögum og ævintýrum, auk blákalds raunveruleikans, opnast gluggar sem veita skilning á stöðu kvenna og hverrar einstakrar konu og útsýni til nýrra möguleika. Þessi þekking verður að uppistöðu sem konurnar nýta til að vefa ný munstur í sinn lífsvef, skapa nýja sögu, um leið og þær læra að nýta efnið í lífi og starfi með öðrum konum og körlum.
Nánari upplýsingar á www.vanadis.is , í síma 895 3319 og í netfanginu vanadis@vanadis.is
Skráning á Lífsvefinn á Austurlandi er á www.tna.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.