Frið á jörð
Á nýársdegi er það Erla María Lárusdóttir innanhúshönnuður sem gerir upp árið 2023. „Ég starfa hjá Vinnumálastofnun, sit í sveitarstjórn á Skagaströnd, tek að mér verkefni í innanhússhönnun og rek menningar- og samveruhúsið Bjarmanes ásamt Evu Guðbjartsdóttur,“ svarar Erla María þegar Feykir forvitnast um hvað hún sé að bralla. Sumir hafa bara fullt að gera.
Hver er maður ársins? – Maður ársins er hver einasti björgunarsveitarmaður á landinu. Dugnaðurinn, fórnfýsin og þrautseigjan sem þetta fólk sýnir er ótrúleg.
Hver var uppgötvun ársins? – Að það eru fjölmargir kostir sem fylgja því að ferðast eins síns liðs til útlanda þó að það sé nú yfirleitt skemmtilegast að hafa góðan ferðafélaga.
Hvað var lag ársins? – Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið dugleg að fylgjast með því sem hefur verið að koma út á árinu. En Spotify myndi líklega segja að lag ársins hjá mér hafi verið Þá kemur þú - með Ný Dönsk.
Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Ég fór ekki á skíði en hef örfáa daga til þess að bjarga því [Erla María svaraði uppgjörinu milli jóla og nýárs.]
Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Utanlandsferðirnar fjórar sem voru bæði vinnu - og einkaferðir og hver annarri skemmtilegri.
Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? –Lærdómur - Árið var krefjandi en á sama tíma mjög lærdómsríkt. Þakklæti - Þakklæti fyrir þau sem eru alltaf til staðar og komu mér í gegnum erfiðu stundirnar á árinu. Gleði - Árið var stútfullt af skemmtilegum samverustundum í góðum félagsskap.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Leiðindi og neikvæðni eiga að fara beint á brennuna því lífið er allt of stutt fyrir svoleiðis rugl.
Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Frið á jörð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.