Líf og fjör í björgunarsveitarstarfinu
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit lá sannarlega ekki í dvala yfir sumarið. Verkefnin voru mörg, tilgangur þeirra margvíslegur og samstarf við hina ýmsu aðila.
Í byrjun sumars sinntum við gæslu við höfnina og með siglingu Málmeyjar á sjómannadeginum. Við buðum bæjarbúum upp á kassaklifur, vorum til staðar fyrir þá sem voru í flekahlaupinu og þá var Slysavarnardeildin Drangey með gæslu við hoppukastalana inni í húsnæðinu og aðstoðaði við dorgveiðikeppnina.
Í lok júní lá leiðin upp í Landmannalaugar þar sem átta félagar dvöldu vikulangt og sinntum þeim verkefnum sem komu upp þar. Fyrsta hjálp, fastir bílar, skoða færð á vegum og svo mætti lengi telja.
Í byrjun júlí fóru svo tveir félagar austur á Borgarfjörð þar sem þeir aðstoðuðu heimamenn við gæslu og framkvæmd í Dyrfjallahlaupinu sem er fjáröflunarverkefni þeirra Sveinunga. Ferðina nýttu svo félagarnir og kíktu til nokkurra björgunarsveita á austurlandinu og stefnt á stærri ferð næsta sumar.
Um verslunarmannahelgina var Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Sauðárkróki þar sem við sinntum gæslu á tjaldsvæðinu, flöggunum fyrir sveitarfélagið, þrifum á salernum tjaldsvæðisins og loks útbjuggum við og skutum upp glæsilegri flugeldasýningu.
Í lok ágúst fóru svo af stað reglulegar æfingar og námskeið sem eru alltaf hluti af vetrardagskránni. Það er skemmst frá því að segja að að meðaltali hafa tæplega tuttugu félagar mætt á æfingar og jafnframt eru um þrjátíu unglingar sem mæta vikulega í Unglingadeildina Trölla.
Framundan eru áframhaldandi æfingar og námskeið á dagskrá og svo má ekki gleyma Neyðarkallinum og jólaösinni okkar; skötuveislu, jólasveinaaðstoð og flugeldasölu.
Það er alltaf líf og fjör í björgunarsveitarstarfinu og er óhætt að segja að allir geti fundið sér eitthvað við hæfi í starfinu.
/Hjördís Einarsdóttir formaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.