Lið Snæfells lék Stólastúlkur grátt í Síkinu

Chloe Wanink var stigahæst Stólastúlkna í kvöld með 33 stig. MYND: HJALTI ÁRNA
Chloe Wanink var stigahæst Stólastúlkna í kvöld með 33 stig. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur fengu lið Snæfells frá Stykkishólmi í heimsókn í Síkið í kvöld í 1. deild kvenna í körfunni. Leikinn átti að spila í gær en honum var frestað um sólarhring sökum veðurs. Ekki virtist ferðalagið hafa farið illa í gestina sem tóku völdin snemma leiks og unnu öruggan sigur. Lið Snæfells var yfir í hálfleik, 19-32, og náðu síðan góðum endaspretti eftir að Stólastúlkur náðu að minnka muninn í átta stig þegar sjö mínútur voru eftir. Lokatölur 51-75.

Gestirnir mættu til leiks með níu leikmenn en Stólastúlkur voru ellefu á skrá. Aðeins sex leikmenn Snæfells fengu að spreyta sig og þar af voru þrjár erlendar stúlkur. Þær stúlkur sem komu inn á hjá gestunum komust allar á blað í stigaskori. Tíu stúlkur fengu mínútur í liði Tindastóls en aðeins fjórar þeirra gerðu stig og þar af ein tvö stig.

Chloe Wanink, sem gerði hátt tvo þriðju stiga Stólastúlkna í kvöld, kom liði Tindastóls yfir í blábyrjun en fljótlega snéru gestirnir dæminu við og leiddu með tíu stigum, 10-20, eftir rúmar sex mínútur. Staðan var 12-23 að loknum fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta gekk liðunum lítið að skora. Staðan 19-32 í hálfleik og eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik var munurinn orðinn tuttugu stig, 21-41. Þá kom ágætur kafli heimastúlkna sem minnkuðu muninn í tíu stig, 33-43, og sá munur var enn að loknum þriðja leikhluta. Staðan 37-47. Chloe minnkaði enn muninn í upphafi fjórða leikhluta og munurinn var enn átta stig, 46-54, þegar þrjár mínútur voru liðnar eftir þrist frá Chloe. Þá komu sjö stig frá gestunum sem gengu síðan á lagið og völtuðu yfir heimastúlkur á lokakaflanum.

Niðurstaðan því vonbrigði því væntanlega hefur lið Tindastóls ætlað að verja heimavöllinn betur í kvöld. Þá er nokkuð ljóst að liðið verður að fá alvöru framlag frá fleiri leikmönnum. Chloe gerði 33 stig í leiknum og þar af aðeins eitt stig úr víti – eina víti Tindastóls í leiknum (nei, þetta var ekki fótboltaleikur)! Emese gerði tíu stig og tók 19 fráköst, Eva Rún gerði sex stig og Fanney tvö. Allir þrír erlendu leikmenn Snæfells skiluðu 40 mínútum og í heildina 54 stigum og 39 fráköstum. Þá var Rebekka Kalla Jóns með 16 stig.

Á fimmtudag halda stelpurnar suður og austur fyrir fjall og spila við sameinað lið Hamars/Þórs í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir