Lið Kormáks/Hvatar úr leik í Mjólkurbikarnum
Fótboltinn er löngu farinn í gang en nú á föstudaginn hófst alvaran því þá fóru fyrstu leikirnir í Mjólkurbikarnum fram. Lið Kormáks/Hvatar fékk Dalvík/Reyni í heimsókn á Sauðárkróksvöll upp úr hádegi í gær. Markalaust var í hálfleik en Eyfirðingarnir gerðu þrjú mörk í síðari hálfleik og Húnvetningar því úr leik í bikarnum.
Leikið var við ágætar aðstæður á gervigrasinu á Króknum og veðrið með skásta móti. Bjarni Óskarsson gerði fyrsta mark leiksins á 56. mínútu og Númi Kárason bætti marki tvö við á 78. mínútu. Hiti færðist í mannskapinn á lokamínútunum og fengu þá þrír leikmenn að skoða gula spjaldið í annað skiptið hjá dómara leiksins. Hlynur Rafn Rafnsson kom inn á hjá Kormáki/Hvöt á 68. mínútu en á 80. mínútu fékk hann gult og síðan aftur gult á 87. mínútu en við sama tækifæri fékk Kristján Óðinsson að líta annað gula spjaldið sitt og því áfram jafnt í liðum. Skömmu síðar gulltryggði Númi sigur gestanna og á 91. mínútu var það Hilmar Þór Kárason í liði Kormáks/Hvatar sem varð að yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið að líta sitt annað gula.
Bæði liðin taka þátt í 3. deildinni í sumar en þar hefst keppni 6. maí.
Nú á skírdag tekur síðan 4. deildar lið Tindastóls á móti grönnum sínum í KF (Knattspyrnufélag Fjallabyggðar) sem hafa gert góð mót síðustu misserin og tefla fram liði í 2. deildinni í sumar. Það verður væntanlega spennandi fyrir lærisveina Donna að fá að spreyta sig gegn sterkum andstæðingi. Mjólkurbikar kvenna hefst síðustu helgina í apríl og þá kemur lið HK í heimsókn á Krókinn en bæði félögin tefla fram liði í Lengjudeildinni í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.