Lið Aþenu gerði Stólastúlkum grikk
Einvígi Aþenu og Tindastóls um sæti í Subway-deild kvenna næsta haust hófst í Austurbergi í Breiðholti í gærkvöldi. Lið Tindastóls hafði lagt Subway-deildar lið Snæfells að velli og Aþenu-stúlkur lið KR í undanúrslitum og því búist við spennandi einvígi. Niðurstaðan varð hinsvegar leiðinlega stór sigur Aþenu því eftir ágæta byrjun gestanna tók Breiðholtsliðið öll völd, var 15 stigum yfir í hálfleik og svo versnaði bara vont. Lokatölur 80-45 og ljóst að Stólastúlkur þurfa að sýna annað andlit í Síkinu á mánudaginn.
Lið Tindastóls byrjaði sem fyrr segir leikinn með ágætum, leiddi 8-12 að loknum fimm mínútum og 14-17 tveimur mínútum síðar. Þá kom 11-0 kafli hjá liði Aþenu sem leiddi því 25-17 að loknum fyrsta leikhluta. Þær voru fljótlega búnar að ná um tíu stiga forystu í öðrum leikhluta og það bil náði lið Tindastóls aldrei að brúa.
Liðin höfðu mæst þrisvar áður í vetur og hafði lið Stólastúlkna unnið tvo leikjanna. Það var ekki að hjálpa gestunum í gær að þrír leikmenn komu meiddir til leiks eftir einvígið við Snæfell; Emese, Rannveig og Ify en sú bandaríska spilaði lítið í leiknum og skilaði aðeins tveimur stigum og munar nú heldur betur um minna. Staðan í hálfleik var 40-25 og í þriðja leikhluta gerði lið Tindastóls aðeins sex stig og köttur úti í mýri.
Áttu slakan dag eins og gerist stundum
Þrátt fyrir að stríða við meiðsli var Emese Vida öflug í leiknum, gerði 19 stig og hirti ellefu fráköst. Aðrir leikmenn gerðu minna en tíu stig; Andriana var með níu og Ingurnar komu næstar með fjögur stig hvor þannig að það hefur sennilega verið fátt um fjalir í Austurbergi í gær – gestirnir fundu þær í það minnsta ekki. Í liði heimastúlkna voru Sianni Martin og Jovenka Ljubetic öflugar með 17 og 16 stig.
Helgi þjálfari var ekki tilbúinn til að skella skuldinni eingöngu á meiðsli lykilmanna, þegar Feykir spurði hann hvort þau hafi sett strik í reikninginn. „Já, það var þannig en við vorum samt ekki nógu beittar og áttum ekki góðan dag. Vorum betra liðið til að byrja leikinn og hefðum, ef við hefðum sett niður layup, verið með meiri forystu í upphafi leiks og þannig byggt upp sjálfstraust. Svo var vörnin ekki nógu þétt og sóknin mistæk líka og það var erfið blanda.“ Helgi segir lið sitt hafa heilt yfir átt slakan dag eins og gerist stundum. „Við verðum mun betri á mánudaginn fyrir framan okkar fólk í Síkinu,“ sagði hann að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.