Leyfi fyrir framkvæmdum í Spákonufellshöfða
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla
15.11.2022
kl. 08.18
Húnahornið segir frá því að Umhverfisstofnun hefur veitt leyfi fyrir framkvæmdum í Spákonufellshöfða en fyrirhugað er að reisa þar fuglaskoðunarhús, bæta og afmarka bílaplan, bæta merkingar og gera úrbætur og viðbætur á göngustígum fólkvangsins. Spákonufellshöfði er friðlýstur og öll mannvirkjagerð og hvers konar annað jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
Á sveitarstjórnarfundi Sveitarfélagsins Skagastrandar í vikunni var lagt fram erindi Umhverfisstofnunar um leyfi til framkvæmdanna. Esja Architecture sótti um leyfið fyrir hönd sveitarfélagsins og eru framkvæmdir áætlaðar næsta vor og haust. Fuglaskoðunarhúsið verður sett upp norðanvert í fólkvanginum og frá bílastæði verður lagður stígur, aðgengilegur fyrir hjólastóla á um 300 metra kafla. Stígurinn mun liggja upp að steyptum palli gamallar bryggju sem er á svæðinu þar sem settur verður upp útsýnispallur úr timbri með sætum.
Framkvæmdunum verður skipt upp í tvo hluta en næsta vor verður hafist handa við gerða göngustíga, bílastæða og fuglaskoðunarhús. Áætlað er að um haustið verði útsýnispallurinn gerður, stígar gerðir hjólastólafærir og skilti sett upp.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.