Leiklistarskóli Bandalagsins á Húnavelli
Árið 2010 markar tímamót í sögu Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Frá upphafi hefur skólinn átt aðsetur sitt að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal en núna á þessu fjórtánda starfsári verður skólinn fluttur um set og settur að Húnavallaskóla í Húnavatnshreppi.
Lengi hefur það verið markmið Bandalagsins að reyna að tryggja betur aðgengi fatlaðra að starfsemi skólans og nú hefur fundist húsnæði sem vert er að láta á reyna, að mati aðstandenda skólans.
„Húsabakkaskóli hefur verið hreiður og hjarta skólastarfsins frá upphafi og við tökum með okkur ríkulegar minningar um fallegt umhverfi, góðan anda, vináttu og stuðning. Um leið er það tröllatrú okkar að hinn eini sanni skólaandi fylgi okkur hvert sem við förum og að á nýjum stað finnum við hinn sama ógleymanlega kraft, sköpun og gleði,“ segir á heimasíðu Bandalagsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.