Leikfélagið vantar herbergi
Nú fer að líða að haustverkefni Leikfélags Sauðárkróks en boðað hefur verið til fundar mánudagskvöldið n.k. til að kanna hverjir gefa kost á sér í ymsa vinnu sem þarf að inna af hendi.
Leikritið sem sett verður upp heitir Rúi og Stúi eftir Skúla R. Hilmarsson og Örn Alexandersson. Það er Þröstur Guðbjartsson sem ætlar að leikstýra þessu bráðskemmtilega leikriti en hann er Skagfirðingum að góðu kunnur fyrir leikstjórn sína á mörgum verkum LS.
Rúi og Stúi er barnaleikrit en þeir kumpánar sem bera þessi nöfn eru uppfinningamenn í litlum bæ og hafa fundið upp vél sem leysir öll verkefni sem henni eru fengin og sér um alla hluti fyrir bæjarbúa. Einn góðan veðurdag bilar vélin og bæjarstjórinn hverfur á dularfullan hátt og hver veit hvað það hefur í för með sér.
Eitt er það vandamál sem Leikfélagið stendur frammi fyrir en það er að ekki hefur tekist að útvega leikstjóranum herbergi enn sem komið er þær sex vikur sem hann yrði á svæðinuog segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir formaður að hún yrði þakklát þeim sem gætu greitt úr því. Ef einhver hefur áhuga á að leigja herbergi getur viðkomandi haft samband við hana í síma 8625771
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.