Leggur til að verslunum verði heimilt að selja lausasölulyf
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, mælti í gær fyrir frumvarpi sínu til breytinga á lausasölulyfjum. Þetta mun vera fyrsta lagafrumvarpið sem hún mælir fyrir en með því er lagt til afnám skilyrða lyfjalaga um að undanþága til sölu á tilteknum sölulyfjum í almennum verslunum megi aðeins veita þar sem ekki er starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú.
Lagt er til að þess í stað verði öllum almennum verslunum heimilt að selja þau tilteknu lausasölulyf sem hljóta undanþágu frá Lyfjastofnun. Í tilkynningu til fjölmiðla segir að breytingin geti skipt sköpum fyrir rekstur almennra verslana, ekki síst fyrir smærri verslanir í smærri byggðarlögum. Þar að auki séu afgreiðslutímar apóteka misjafnir eftir stærð byggðarlaga og hefði breytingin í för með sér betra aðgengi fólks að lausasölulyfjum. Þá má gera ráð fyrir að með aukinni samkeppni batni þjónusta og verð á þessum tilteknu lausasölulyfjum lækka, segir í tilkynningunni.
„Lyf sem ekki eru ávísunarskyld eru opin öllum til kaupa, því er þá þessi þröngi rammi settur utan um aðgengi fólks að þeim? Auðvitað á það ekki að skipta máli hver selur þessa nauðsynlegu vöru, miklu heldur eigum við að setja í kjölfarið bara eðlilegar kröfur á þann sem selur vöruna, ekki hver það er. Með því að víkka út undanþáguheimild til að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum væri með tiltölulega einföldum hætti hægt að koma betur til móts við þarfir neytenda, auka aðgengi, auka samkeppni og lækka verð á tilteknum lausasölulyfjum sem Lyfjastofnun hefur þegar heimilað almennum verslunum að selja,“ sagði Berglind Ósk þegar hún mælti fyrir málinu í gær.
Frumvarpið í heild má lesa HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.