Laufskálaréttarhelgin

Þeir sem hafa prófað þetta vita hvað þetta er gaman. MYND ÓAB
Þeir sem hafa prófað þetta vita hvað þetta er gaman. MYND ÓAB

Það er ekki ofsögum sagt að Laufskálaréttarhelgin er ein stærsta ferðamannahelgi ársins í Skagafirði. Þar koma saman hestar og menn í einni vinsælustu stóðrétt landsins þessa helgi, svo nú er lag að pússa reiðtygin, viðra vaxjakkann og finna vasapelann og hattinn, því Skagaförður boðar ykkur mikinn fögnuð. 

Laufskálarétt hefst klukkan 13:00 laugardaginn 30. september, en í skilaboðum frá fjallskilanefnd á vef Skagafjarðar kemur fram að öllum sé heimilt að taka þátt í stóðrekstrinum en knöpum er bent á að leggja af stað frá áningarhólfi hestamanna við Sleitustaði og frá Laufskálarétt ekki seinna en klukkan 10:00. Rekstrarstörf hefjast um klukkan 11:30 frá afréttarhliðinu við Unastaði í Kolbeinsdal. Stóðrekstrarstjóri er Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum og Bergur Gunnarsson á Narfastöðum hefur yfirumsjón með réttarstörfum.

En veisla helgarinnar hefst ekki með réttinni heldur byrjar hún strax á föstudag. Hér má sjá dagskrá yfir viðburði helgarinnar.

Föstudagurinn 29. september.

Opið hesthús í Neðra- Ási Hjaltadal frá 14:00-18:00. Allir velkomnir

Opið hesthús Hrímnishöll, Varmalæk. Það eru Hrossaræktendurnir á Varmalæk, Tunguhálsi 2 og Tölthólar sem hafa tekið höndum saman og bjóða fólk velkomið, frá 14:00- 18:00, allir velkomnir.

Opið hesthús á Varmalandi í Sæmundarhlíð. Hefð hefur skapast fyrir þessu opna húsi og það verður ýmislegt í að líta, folalda- og tryppasýning, vatnsbrettaþjálfun og söluhross af öllum gerðum. Allir hjartanlega velkomnir milli 13:00- 17:00.

Stórsýning í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki, húsið opnar 19:00 og sýningin hefst á slaginu 20:00. Skipuleggjendur sýningarinnar lofa veislu, úrvals hestar, knapar og stórskemmtilegir kynnar.

Hótel Varmahlíð verður með opinn veitingastaðinn sinn þar sem hægt verður að fá sér að borða eftir hesthúsa rúnt um sveitir Skagafjarðar, skella sér svo á sýninguna í Reiðhöllinni og enda svo á balli með hljómsveitinni Steinliggur á Hótelinu. Miðaverð á ballið 2500 kr.-selt við hurð.

Danssveit Dósa verður með alvöru sveitaball. Það verður í Félagsheimilinu í Hegranesinu steinsnar frá Reiðhöllinni Svaðastöðum. Ballið byrjar eftir sýningu eða um 23:00 um er að ræða alvöru flöskuball, aldurstakmark er 18+, miðaverð er 4000 kr.-, selt í hurð.

Kaffi Krókur verður með opið alla helgina frá 11:30, þar er í boði matur og afþreying. Rúnar Eff verður með alvöru kúrekastemmingu á föstudagskvöldinu, það er frítt inn og þeir sem ekki treysta sér á ball tvö kvöld í röð skella sér á Kaffi.

Laugardagurinn 30. september.

Laufskálarétt byrjar klukkan 13:00

Þeir sem náðu ekki að heimsækja Hrímnishöllina á föstudeginum hafa tækifæri til þess aftur á laugardeginum milli 14:00 og 18:00.

Kótilettur og ball í Félagsheimilinu á Hofsósi. Húsið opnar 18:30, borðhald hefst klukkan 19:00, hljómsveitin Feðgarnir spila eftir mat til klukkan 02:00. Miðaverð er 7000 kr. fyrir mat og ball, pantanir þurfa að berast á retroehf@gmail.com eða í síma 865-5012. Skráningu lýkur 28. september og er 18 ára aldurstakmark á þennan viðburð.

Uppistand í Gránu, Jakob Birgis, Skóli lífsins byrjar, klukkan 21:00 miðasala á tix.is

Hótel Varmahlíð verður með opinn veitingastað um kvöldið, Elvar Logi og Gummi syngja og spila fram eftir nóttu. Frítt inn.

Laufskálaréttarballið, stærsta sveitaball ársins, sem þið viljið ekki missa af í Reiðhöllinni Svaðastöðum- Sverrir Bergmann og Albatross, Séra Bjössi, Diljá, Emmsjé Gauti, Hlómsveitin Von. Aldurstakmark 16+. Forsöluverð 6000, við hurð 6500.

Að lokum, gangið hægt um gleðinnar dyr, verið góð hvert við annað og vandið ykkur við akstur þegar mikið er um fólk, til dæmis á hestum. Tillitsemi og hófsemi eru góð orð til að hafa bak við eyrað um helgina. Fyrst og fremst munið að vera ekki „Fávitar.“ Skemmtið ykkur fallega, þessi helgi stefnir í heljarinnar veislu. 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir