Langaði að verða atvinnumaður í fótbolta frá unga aldri
Nú heilsum við upp á nýja liðskonu Stólastúlkna sem spila í Lengjudeildinni í sumar. Það er Hannah Jane Cade en hún er ein þriggja bandarískra stúlkna sem leik með liði Tindastóls. Hinar tvær kannast flestir við enda búnar að staldra talsvert við á Króknum en það eru þær Murielle Tiernan og Amber Michel. Hannah tekur í raun sæti Jackie Altshculd sem hafði spilað með liði Tindastóls þrjú síðustu ár en spilar nú sinn fótbolta í Bandaríkjunum.
„Hannah Cade er fyrsta flokks leikmaður og karakter. Hún er alltaf tilbúin að hjálpa liðinu sínu á vellinum og lika utan vallar. Alltaf brosandi, jákvæð og gefst aldrei upp. Hannah er frábær fyrirmynd og mikill leiðtogi auk þess sem hún er geggjuð i fótbolta,“ segir Donni, þjálfari Stólastúlkna, þegar Feykir spyr hvernig leikmaður og karakter hún sé.
Hannah er 24 ára gömul og spilar á miðjunni. Hún er frá Lakeville í Minnesota. Mamma hennar er Melanie, pabbinn Bill og þau eiga eina dóttur að auki en það er Maggie. Ekki má gleyma hundinum Jimmy! Hannah hefur lokið námi frá Iowa State University með gráðu í líffræði og sálfræði
„Ég kom til Íslands til að spila fótbolta vegna þess að Christopher Harrington bauð mér ótrúlegt tækifæri til að koma til Fram til að spila,“ segir Hannah þegar hún er spurð hvers vegna hún hafi komið til Íslands en hún lék með liði Fram í 2. deildinni í fyrra. Christopher Harrington, eða Glichy, er Tindastólsfólki vel kunnur enda bæði þjálfaði hann og spilaði með Stólunum fyrir nokkrum árum. „Mig hafði alltaf langað til að fara í atvinnumennsku frá því ég var lítil stelpa svo ég stökk á tækifærið. Áður en ég kom hingað var ég að spila háskólabolta við Iowa State háskólann, þjálfa og vinna á sjúkrahúsi,“ segir Hannah.
Hvað hefur komið þér mest á óvart á Íslandi? „Síðan ég kom til Íslands hefur vindurinn komið mér mest á óvart. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu oft við myndum spila í roki – ef ekki verra!“
Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls? „Ég elska að vera hluti af liði Tindastóls! Ég var mjög kvíðin að koma inn í hóp sem hefur verið saman svo lengi en allir hafa tekið virkilega vel á móti mér og látið mér líða eins og ég sé heima. Allir styðja hver annan mjög og við erum eins og stór fjölskylda hér.“
Þú spiaðir með liði Fram í Reykjavík í fyrra. Hver er munurinn á að vera á höfuðborgarsvæðinu eða hér úti á landi? „Einn helsti munurinn á því að búa og spila fótbolta á Sauðárkróki í stað Reykjavíkur er örugglega stærð bæjarins. Á síðasta ári var ég í návígi við fjölbreytta afþreyingu og staði en hérna uppi búum við til okkar eigin afþreyingu og erum dugleg að skoða okkur um – sem hefur verið frábært hingað til.“
Hvernig finnst þér gæðin í Lengjudeildinni, er þetta mikið betri fótbolti en í 2. deild? „Ég held að það að spila í Lengjudeildinni hafi verið skref upp á við í gæðum miðað við fótboltann í 2. deildinni. Það er mjög gaman að spila á móti þessum hágæða liðum og prófa okkur líka gegn sumum Besta deildarliðum.“
Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn eða skemmtilegasti? „Ég elska svo sannarlega allar stelpurnar í liðinu. Allir eru alveg frábærir á mismunandi hátt en sú líflegasta og skemmtilegasta í búningsklefanum er svo sannarlega Anna Margrét! Hún kemur öllum í gott skap!“
Hverjar eru vonir þínar fyrir tíma þinn hér á Íslandi? „Á meðan ég er á Íslandi vonast ég virkilega til að eignast vini og mynda tengsl við fólk sem munu endast alla ævi. Þetta er í raun svo ótrúleg reynsla sem ég er svo heppin að upplifa. Ég vonast líka til að geta hjálpað liði Tindastóls að komast upp!“
Hvaða fótboltamaður hefur verið þín fyrirmynd? „Uppáhalds fótboltamaður minn allra tíma er Andrés Iniesta. Ég elskaði alltaf að horfa á hann spila með Spáni og Barcelona því hann spilaði svo einfalt en var einstaklegahæfileikaríkur og áhrifaríkur miðjumaður. Hann var ekki of áberandi en þú vissir alltaf að hann myndi gera leikmennina í kringum sig betri.“
Hvað gerir þú annað á Króknum en að spila fótbolta? „Fyrir utan fótbolta eyði ég miklum tíma með herbergisfélögum mínum, Murr og Amber. Við gerum mikið saman. Við eyðum líka miklum tíma með liðsfélögum okkar í íbúðinni okkar. Ég hef reyndar fengið gesti nýlega! Mamma, pabbi og systir komu hingað nýlega og náðu að sjá einn heimaleik. Það var svo gaman að fá að sýna þeim og skoða norðrið með þeim. Ég á líka von á að fleiri ífjölskyldunni koma hingað í ágúst.“
Hefur dvölin á Íslandi verið erfið að einhverju leyti? „Það erfiðasta við Ísland hefur verið tímamismunurinn hér og þar sem fjölskyldan/vinirnir mínir eru. Það er svolítið erfitt að skipuleggja tíma til að tala með fimm tíma mun,“ segir Hannah hlæjandi.
Stutta spilið:
Uppáhalds íslenska snakkið? Trítlar, súrt nammi, hefur verið uppáhalds snakkið mitt sem ég hef prófað hér!
Lag sumarsins? Ég á mjög erfitt með að velja eitt uppáhald því það breytist í hverri viku en eins og er er ég mjög hrifin af Kilby Girl með The Backseat Lovers.
Skrítnasti maturinn sem þú hefur bragðað á Íslandi? Þurrkaður hákarl.
Uppáhalds fótboltalið? Uppáhaldsliðið mitt er Barcelona undir stjórn Pep Guardiola.
- - - - -
Viðtalið birtist fyrst í 25. tölublaði Feykis í júní 2022. Myndir úr fótboltaleikjum tók Óli Arnar en aðrar myndir eru af Facebook.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.