Landsnet, Orka náttúrunnar og Tengill í samstarf við Alor ehf.
Tæknifyrirtækið Alor ehf. vinnur að þróun og síðar framleiðslu sjálfbærra álrafhlaðna og orkugeymslna. Alor hefur undirritað samninga við Orku náttúrunnar, Landsnet og Tengil um stuðning fyrirtækjanna við framleiðslu frumgerðar álrafhlöðu. Það er markmið samstarfsins að byggja upp þekkingu auk þess að stuðla að nýsköpun og framförum á sviði hönnunar og framleiðslu álrafhlaðna á Íslandi. Slík framleiðsla mun stuðla að hraðari orkuskiptum sem og að bæta nýtingu raforku og draga úr sóun hennar.
Álrafhlöður verða hagkvæmar og með góða afkastagetu. Þá verða þær um 95% endurvinnanlegar, af þeim stafar hvorki eld- né sprengihætta auk þess sem þær eru hagkvæmar og hafa mikla afkastagetu. Notkunarmöguleikar álrafhlaðna eru fjölþættir, s.s. sem varaafl í ýmsum iðnaði og aflgjafar sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Þá getur tæknin einnig nýst í farartæki í stað blýsýrugeyma.
„Við hjá Orku náttúrunnar erum afar stolt yfir því að geta tekið þátt í nýsköpun og þróun á umhverfisvænum lausnum sem nýtast víða í samfélaginu. Þetta verkefni gerir það svo sannarlega því þörfin fyrir umhverfisvænni rafhlöður er afar brýn og gæti lausn Alor spilað þar stórt hlutverk. Stuðningur lykilaðila í orku- og loftslagsmálum á Íslandi skiptir miklu mál fyrir fyrirtækið á þessu stigi og því fögnum við því að allir þessir aðilar skuli taka höndum saman” segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri ON.
Alor vinnur einnig að þróun og framleiðslu stórra orkugeymslna úr áli sem verður unnt að nýta til þess að geyma mikið magn raforku og stuðla að bættri nýtingu hennar.
„Landsnet sér m.a. möguleg tækifæri í að nýta rafhlöður ásamt varaaflsvélum, til þess að brúa bilið sem verður frá því rafmagn fer af þar til varaaflið er komið í gang. Lausn sem þessi getur dregið úr keyrslu varaafls með jarðefnaeldsneyti og minnkað straumleysi. Mikil þróun á sér nú stað í rafhlöðutækni og Landsnet vill leggja sitt af mörkum til þess að styðja við uppbyggingu þessarar tækni hér á landi og vonandi tekið tæknina sem fyrst í notkun,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.
Síðustu átta ár hefur álrafhlöðutæknin verið þróuð af spænska samstarfsfyrirtækinu Albufera Energy Storage sem fengið hefur til þess stóra Evrópustyrki. Á síðustu mánuðum hefur Alor hlotið styrki frá Orkusjóði og Tækniþróunarsjóði.
„Heimurinn stendur frammi fyrir þeim áskorunum að draga úr losun og stuðla að bættri nýtingu framleidds rafmagns. Með stuðningi íslenskra fyrirtækja og sjóða hefur Alor tækifæri til þess að hraða framleiðslu frumgerða álrafhlaðna. Þannig er Alor skrefi nær því að koma sjálfbærri og grænni lausn á markað sem getur mætt þessum áskorunum. Það er mikið gleðiefni fyrir Alor að fá þessi öflugu fyrirtæki í lið með okkur sem trúa því að tæknin og teymið standi undir væntingum. Við vinnum að því þessa dagana að semja við fleiri áhugasöm fyrirtæki um samstarf og tilraunaverkefni“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.
Áætlað er að framleiðsla frumgerða álrafhlaðna hefjist í upphafi næsta árs og ljúki á vormánuðum. Þá er fyrirhugað að hefja tilraunaframleiðslu álrafhlaðna í lok árs 2023 og fullbúin vara verði komin á markað á árinu 2025.
„Síðustu misserin höfum við hjá Tengli fylgst náið með þróun á tækni Alor sem hefur burði til þess að gegna lykilhlutverki í orkuskiptunum. Með samstarfi við Alor viljum við styðja við nýsköpun á sviði rafhlöðutækni og leggja okkar af mörkum svo fyrirtækið geti framleitt frumgerð að álrafhlöðu. Innleiðing tækninnar og frekari þróun verða mikilvæg verkefni sem taka við þegar frumgerð liggur fyrir,“ segir Gísli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tengils.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.