Landsmótsnefnd tekur upp samstarf við upplýsingamiðstöð
Þrátt fyrir að enn sé um það bil hálft ár í að Landsmót hefjist er síður en svo lognmolla í kringum skipulagningu þess. Eitt af því sem fylgjast þarf með eru gistimál. Landsmót kemur ekki beint að bókun gististaða fyrir gesti sína en hefur tekið upp gott samstarf við Upplýsingamiðstöðina í Varmahlíð sem heldur utan um gistimálin fyrir Landsmót.
Starfsfólk upplýsingamiðstöðvarinnar er með ágæta yfirsýn yfir það hvar enn eru laus gistirými og hvaða staðir eru nú þegar orðnir fullir. Við hvetjum því fólk til að leita til starfsfólks upplýsingamiðstöðvarinnar ef upp koma spurningar varðandi gistimál. Til að auðvelda fólki leitina að svefnplássi höfum við tekið saman lista yfir þá gististaði í nágrenni mótssvæðis sem enn eiga laus rúm á meðan móti stendur. Þennan lista má finna á heimasíðu Landsmótsins. Mikil eftirspurn er eftir gistingu á svæðinu og við hvetjum því fólk til að tryggja sér gistingu í tíma.
Fyrir þá sem kjósa að halda til á mótssvæðinu verða að venju tjaldstæði í boði fyrir þá sem vilja sem og hjólhýsastæði með aðgangi að rafmagni. Sala á rafmagnsstæðum hefst í janúar og verður það auglýst nánar þegar að því kemur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.