Landsmótið verður aftur í júlí 2020
Stjórn UMFÍ hefur ákveðið að Landsmótið verði haldið á nýjan leik í júlí árið 2020. Það felur í sér að í upphafi árs 2019 verður skipuð nefnd sem mun hefja undirbúning Landsmótsins sem er á meðal umfangsmestu viðburða Ungmennafélags Íslands. Á heimasíðu UMFÍ segir að mikil ánægja hafi verið með mótið sem haldið var á Sauðárkróki í sumar. Á meðal þess sem nefndin mun gera er að leita til sambandsaðila UMFÍ eftir því hvar Landsmótið verður haldið.
Á umfi.is kemur þetta fram: „Ljóst er að þetta verður heljarinnar sumar hjá UMFÍ því sama ár verður Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmót UMFÍ 50+.
Landsmót UMFÍ hafa alla jafna verið haldið á um fjögurra ára fresti frá árinu 1909. Í júlí í sumar var haldið Landsmót sem var með gjörbreyttu sniði frá því sem áður var. Landsmótið í sumar var opið öllum 18 ára og eldri hvort sem þeir voru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Mótið stóð í fjóra daga og gátu þátttakendur þar keppt í eða prófað næstum 40 íþróttagreinar og skemmt sér alla daga við ýmislegt heilsutengt eða farið á dansleik og tónleika. Hádegisfyrirlestrar um eitt og annað tengt lýðheilsu voru alla dagana á Sauðárkróki.
Rúmlega 1.000 þátttakendur voru skráðir á Landsmótið þegar það var haldið í fyrsta sinn með þessu breytta sniði á Sauðárkróki. Á sama tíma fór fram Landsmót UMFÍ 50+ og Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum. Sauðárkrókur var af þessum sökum fullur af fólki sem hafði það að leiðarljósi að skemmta sér og stunda íþróttir í heila helgi.“
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.