Landbúnaðurinn stendur sig best

Þegar kemur að þróun vöruverðs hér á landi þá stendur landbúnaðurinn sig best. Ef ekki væri fyrir verðþróun landbúnaðarvara þá væri verðbólga hér mun hærri, lífskjör þar af leiðandi verri og það sem menn gleyma svo oft. Lán manna hefðu hækkað mun meira en þau hafa þrátt fyrir allt gert.  Ástæðan er sú að landbúnaðarvörur okkar hafa haldið aftur af verðbólgunni, með því að verðhækkanir þeirra hafa verið mun minni en annarra vöruflokka í neysluverðsvísitölu okkar.

Þessar upplýsingar koma fram í svari efnahags og viðskiptaráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi fyrir skemmstu og Bændablaðið greindi frá. Ástæða þess að ég spurði, var sú að ég taldi nauðsynlegt að varpa ljósi á þróun verðlags á neysluvörum okkar. Sérstaklega lék mér hugur á að skoða málin með hliðsjón af verðþróun íslenskra landbúnaðarafurða. Bæði vegna þess að landbúnaðarvörur eru umtalsverður hluti neyslu okkar. En ekki síður af þeirri ástæðu að margir hafa haldið úti miklum áróðri gegn bændum og landbúnaðinum. Hefur því verið haldið fram að íslenskur landbúnaður héldi hér uppi vöruverði og héldi þar með lífskjörunum niðri.

Nú er svarið sem sagt komið og segir okkur mjög fróðlega sögu, sem ég tel fulla ástæðu til þess að halda á lofti.  Kjarni hennar er einfaldur og er þessi. Landbúnaðurinn stendur sig best.

Þróun neysluverðsins

Í spurningu  minni til ráðherrans óskaði ég svara um hver hefði verið þróun vísitölu neysluverðs frá ársbyrjun til þessa dags. Svarið tók til tímabilsins frá ársbyrjun 2007  til mars á þessu ári, eða tæpra 40 mánuða, svo það ætti að vera skýrvísbending um verðþróun á þetta löngu tímabili og einstaka verðsveiflur ættu því ekki að skipta máli. Niðurstaðan er sem sagt marktækt og segir okkur mikla sögu.

Ef við skoðum innlendar neysluvörur sérstaklega þá hækkuðu þær um 29,5%. Hér er bæði um að ræða innfluttar og innlendar framleiðsluvörur. Séu skoðaðar þær neysluvörur, utan áfengis og tóbaks, sem eru fluttar inn, þá blasir önnur mynd við. Þær sýna verðlagshækkun á umræddu tímabili upp á 55,6%, sem segir okkur almennt að innfluttar neysluvörur hækka mun meira en þær innlendu. Gengisfallið frá miðju ári 2008 skýrir þetta auðvitað mikið og segir okkur að samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu er mun betra en áður í samanburði við innfluttar neysluvörur. Þetta er vitaskuld skýringin á því að við fáum oft fréttir af því að einstaklingar séu að hasla sér völl á nýjum sviðum innlendrar vöruframleiðslu og að kaupendur slíkrar þjónustu halla sér fremur að innlendum en erlendum framleiðsluvörum.

En hvað með matvöruna?

En snúum okkur þá að matvörunni.

Skoðum þá fyrst búvöruframleiðsluna. Í tölum Hagstofunnar er verðþróun hreinna búvara og grænmetis ekki sundurliðuð í innlenda og erlenda framleiðslu. Ljóst er hins vegar að íslenska framleiðslan vegur lang þyngst. Jafnframt er ljóst að verðhækkanir á  innfluttum vörum hafa verið mun meiri en á innlendum framleiðsluvörum bænda. Engu að síður kemur í ljós að búvörurnar hafa einvörðungu hækkað um 22,2%. Ætla má að ef innfluttu vörurnar væru teknar frá væri verðþróun innlenda hlutans ennþá hagstæðari.

Og ef við skoðum svo til samanburðar vöruþróunina varðandi aðrar innlendar matvörur, þá getur landbúnaðurinn staðið mjög keikur. Þessar vörur hafa hækkað um 35,6% á sama tíma og landbúnaðurinn er að hækka um 22,2% að hámarki, eins og lesa mátti hér að ofan.

Enn getum við bætt við samanburðinn. Ef við skoðum nú bara innfluttar matvörur, þá hafa þær hækkað um 62,8%. Eða þrisvar sinnum meira í prósentum talið en innlenda búvaran.

Bændurnir bjuggu til skjaldborgina!

Þetta eru tölur sem koma kannski á óvart. Þær eru að minnsta kosti í algjöru ósamræmi við málflutning þeirra sem hafa endalaust rekið horn sín og hnýfla í landbúnaðinn, kvartað unan kostnaði ríkissjóðs og neytenda og haldið á lofti þeim málflutningi sem veikir íslenska landbúnaðarframleiðslu.

Landbúnaðurinn íslenski getur veirð stoltur og við getum verið stolt af íslenskum landbúnaði. Það er ljóst að bændur, afurðastöðvar  og aðrir þeir sem að landbúnaði starfa, geta verið stoltir af verkum sínum. Þeir  hafa lagt sitt af mörkunum til að halda verðlagi hér í skefjum og bætt þannig lífskjörin.

Ef það væri ekki fyrir þeirra atbeina hefði verðlag hækkað meira, sem leitt hefði til meiri hækkunar á lánskjaravísitölu og þar með þyngingar á fjármagnsbyrði vegna verðtryggingar lána. Það má því kannski segja að skjaldborgin umrædda sé þá til eftir allt saman. Hún var auðvitað ekki reist af stjórnvöldum. Íslenskur landbúnaður bjó í raun það sem sést í af skjaldborginni, með því að halda aftur af verðbólgunni og koma þar með  í veg fyrir ennþá meiri fjármagnsbyrði skuldsettra heimila og fyrirtækja í landinu, en raun ber vitni um og er nú nóg samt.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir