Lagði mikið á sig til að kaupa gítarinn
Hljóðfærið mitt er snúið aftur í Feyki og að þessu sinni ætlar Eiríkur Hilmisson að segja okkur frá sínu uppáhalds hljóðfæri. Eiríkur, eða Eiki eins og við þekkjum hann flest, er sonur Hilmis Jóhannessonar og Huldu Jónsdóttur. Eiki bjó á Króknum lengi vel en býr í dag í Reykjavík.
,,Ég bý í hjarta Valshverfisins í Reykjavík (það er hverfi 105, kann samt ekki vals eða aðra gömlu dansa). Ég legg upp með það á hverjum degi að gera ekki neitt, en hef ekki náð neinum árangri með það, svo ég enda nánast alla daga sem tæknimaður.“
Hvaða hljóðfæri heldur þú mest uppá af þeim sem þú átt?
Það er Gibson Les Paul Custom smíðaður þann 24. apríl árið 1976 í Nashville og er eintak númer 54 það ár. Yngsta dóttir mín, Kristel Eir, fæddist 23 árum síðar sama mánaðardag og gítarinn er smíðaður.
Hvers vegna heldur þú mest upp á þetta hljóðfæri?
Þessi gítar kostaði 75 þúsund krónur árið 1977 og ég fjármagnaði kaupin með 25 þúsund kr. sem ég fékk í fermingargjöf, 40 þúsund kr. sem ég vann fyrir um sumarið og 5000 kr. sem ég fékk lánað hjá mömmu og pabba. Líklega held ég upp á þetta hljóðfæri vegna þess hversu mikið ég lagði á mig til að kaupa það og auk þess finnst mér gott að spila á hann.
Ert þú fyrsti eigandinn að hljóðfærinu? Hvar keyptiru það? Ef ekki hver/hverjir áttu það á undan þér? Ég er fyrsti og eini eigandinn keypti hann nýjan úr hljóðfæraversluninni Rín. Þetta var símapöntun en um haustið þegar ég fór til Reykjavíkur þá fór ég í Rín, hitti Magnús Eiríksson, eiganda Rínar og hann kenndi mér að spila lagið Sölvi Helgason, sem hann samdi og kom út um sumarið á plötunni Í gegnum tíðina í kaupauka. Gott lag og texti.
Hefur hljóðfærið hljómað á einhverjum plötum eða lögum?
Já, gítarinn er 5,2 kg svo ég notaði hann nánast ekkert í ballspilamennsku sem hefur pottþétt bjargað honum frá stórtjóni svo ég hef notað hann eingöngu í upptökum þar sem ég get setið með hann.
Hefur þetta hljóðfæri eitthvað fram yfir svipuð hljóðfæri að þínu mati?
Já líklega 2-3 kg.
Gætir þú hugsað þér að selja það einhvern tímann?
Nei
Hefur þú séð á eftir einhverju hljóðfæri sem þú værir til í að eiga í dag?
Já það er Teisko hálfkassagítar sem ég fékk í fermingagjöf frá mömmu og pabba. Lánaði Þórólfi Stefánssyni hann til Reykjavíkur, hef ekki séð hann síðan.
Með gítarinn á sjónum
Eiki var í mörg ár á sjó og var hann yfirleitt með gítar með sér í túrum.
„Ég var í mörg ár á sjó, byrjaði ungur á loðnuveiðiskipi sem bar nafnið Pétur Jónsson eftir langafa mínum, síðan voru þetta togararnir heima; Skafti, Hegranes og Málmey. Það var oft gaman hjá okkur, stundum sátum við saman, spiluðum og sungum sem mér fannst mjög skemmtilegar stundir og oft kom listagyðja í heimsókn. Þá var samið lag og texti um augnablikið eða nýliðna atburði, þetta voru tækifærislög og það góða við þau er að það er gaman að búa þau til og allt í lagi að gleyma þeim eftir notkun. Við starfræktum að sjálfsögðu menningar- og framfarafélag um borð og á viðburðum félagsins var gítarinn í stóru hlutverki.“
Að lokum segir Eiki okkur frá því er einn samstarfsmaður hans á sjónum bað hann um að spila í brúðkaupinu sínu.
„Hann kom til mín og ræddi við mig einslega, passaði að enginn heyrði, tilkynnti mér það að hann væri að hugsa um að fara að gifta sig og hann langaði svo til að ég myndi spila fyrir hann í brúðkaupinu. Ég segi já og spyr hvað hann sé að hugsa um. Þá sagði hann: „Hérna, ég var að spá hvort þú gætir tekið lagið I want to break free“. Ég held hann hafi ekkert kunnað ensku og sagði við hann; ,,Já, reyndu að finna einhvern annan í þetta“.“
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.