Lærum af dýrkeyptri reynslu

Ekki er tryggt að til staðar séu nægjanlegar birgðir af lyfjum og bóluefni vegna dýrasjúkdóma. Þetta kom fram í svari sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra  við fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi og var svarað 17. febrúar sl.  Þetta er alvarlegt umhugsunarefni og staða sem menn verða að finna út úr.

Tilefni þessarar fyrirspurnar minnar er það að í lok október sl. kom upp heiftarleg lungnasýking í minkabúinu á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Á þessu búi, sem er eitt hið stærsta í landinu, voru 14.000 minkar og sjúkdómurinn varð á fjórða þúsund dýra að fjörtjóni. Sjúkdómsins varð líka vart víðar í Skagafirði, búinu á Ingveldarstöðum en þar varð tjónið ekki eins mikið. Þetta er kannski þeim mun alvarlegra í ljósi þess að þeir Skörðugils-menn – og þar sem ég þekki nokkuð til - höfðu nýlega stækkað mjög búið sitt, byggt upp gríðarlega myndarlega aðstöðu og eflt bústofninn. Eins og við vitum hefur það komið í ljós upp á síðkastið að menn binda núna miklar vonir við loðdýraræktina sem ákveðinn vaxtarbrodd í okkar samfélagi. Ég var sjálfur nýlega á tveimur þjóðfundum í Bolungarvík og á Sauðárkróki, þar sem sýnd var sérstök kynningarmynd um möguleika einmitt á loðdýrarækt sem nýsköpun og vaxtarbroddi í landbúnaðinum, og er ekki ólíklegt að ýmsum komi það  á óvart.

Tjónið í Skagafirði var mjög tilfinnanlegt. Formaður samtaka loðdýrabænda áætlaði að það hefði numið um 12 milljónum króna og fæst það ekki bætt. Til viðbótar kemur síðan annað tjón þegar ræktun hrynur.

Spurningar vakna

Spurningin hefur vaknað í huga mjög margra bænda hvort ekki þurfi að hafa reglur um lágmarksbirgðir af bóluefni og lyfjum til þess að mæta því þegar svona fár kemur upp. Ekki einvörðungu vegna loðdýraræktarinnar heldur vegna annarra bústofna líka. Það er ekki við því að búast að hver og einn bóndi geti legið með slíkar lyfjabirgðir á eigin kostnað og eðlilegt að menn velti því a.m.k. fyrir sér með hvaða hætti það eigi að hafa reglurnar um þetta. Hver eigi að bera þennan kostnað og þar fram eftir götunum.

Heilbrigðisyfirvöld geta samkvæmt lyfjalögum skikkað lyfjaheildsölur til þess að eiga nægar birgðir lyfja sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir. En einungis ef um lyf er að ræða sem hafa fengið markaðsleyfi og slíkt á aðeins við um fáein dýralyf. Þau lyf sem slíkt leyfi hafa ekki eru ekki undirorpin slíkri lagakvöð.

Í máli ráðherra kom fram að yfirdýralæknir telur æskilegt að til væru í landinu ákveðnar birgðir af nokkrum tegundum sýklalyfja fyrir dýr, til að geta brugðist hratt við ef á þyrfti að halda vegna óvæntra sjúkdóma í dýrum hér á landi. Vandinn er hins vegar tvenns konar. Þessu fylgir kostnaður og taka þarf afstöðu til þess hver stendur af honum straum. Og síðan hitt að lyfjabirgðir sem ekki eru nýttar úreldast og því þarf að endurnýja þau reglulega til að þau haldi virkni sinni.

Lærum af biturri reynslunni

Alþjóðlegi dýralyfjaheimurinn er stór og Ísland er mjög lítill notandi í alþjóðlegu samhengi. Þeim mun mikilvægara er  að allir ferlar að innflutningi lyfja og allt í kringum það hér á landi sé sem skjótvirkastir og skilvirkastir  hverju sinni.  Einnig er eðlileg krafa að tryggt sé að ákveðinn lyf séu til í landinu þó vissulega verði aldrei hægt að sjá fyrir öllu. 

Að fenginni þessari bitru reynslu er afar mikilvægt að menn setjist rækilega yfir þetta mál. Að því þurfa að koma bændur, vísindamenn, dýralæknar og stjórnsýslan, svo hægt sé að kanna til þrautar hvað best sé að gera til þess að afstýra tjóni í landbúnaðinum og eins og bent hefur verið á þá væri mikilvægt að til staðar sé viðbragðsáætlun varðandi hættulega dýrasjúkdóma.

Við erum svo heppin að eiga á að skipa frábæru fólki sem getur tekist á við vandamál af þessu tagi. Krafta og þekkingu þessa fólks þurfum við þess vegna að nýta eins og frekast er unnt til þess að lágmarka skaða. Aðalatriðið núna er að læra af reynslunni; dýrkeyptri reynslunni.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir