Læmingjar og kettir
Samkvæmt fréttum Feykis hélt Bjarni Jónsson hátíðarræðu þann 17. júní. Eins og Jóhanna nefndi hann kollega sinn Jón Sigurðsson forseta til sögunnar, en hætti sér ekki út í að ræða um fæðingarstað hans. Hins vegar leitar hann í smiðju Jóhönnu og tekur líkingar úr dýraríkinu máli sínu til áréttingar. Hún tók líkingu af köttum en hann af læmingjum.
Jóhanna líkti ráðherrum og þingmönnum Vinstri grænna við ketti sem erfitt væri að smala. Þetta sagði hún í trausti þess að Vinstri grænir láti bjóða sér hvað sem er og hampar sér á þeirra kostnað. Og traustið var verðskuldað, þeir létu þetta yfir sig ganga og ein þingkona þeirra lýsti því meira að segja yfir, að hún væri upp með sér að vera líkt við ketti. Þeir væru svo gáfaðir.
Í hátíðarræðu sinni fer Bjarni fögrum orðum um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, hversu frelsi og fullveldi þjóðarinnar sé mikilvægt og varar við inngöngu í Evróðusambandið. Hann segir að það sé kaldhæðnislegt að á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní skuli leiðtogaráð Evrópusambandsins taka ákvörðun um að hefja skuli viðræður við Ísland um inngöngu í sambandið.
Bíðum við. Er þetta oddviti Vinstri grænna í Skagafirði að tala? Flokksins sem er í ríkisstjórn og studdi umsókn í Evrópusambandið? Hvernig er hægt að hafa smekk til þess að tala svona? Það eru verkin sem tala. Vinstri grænir bera fulla ábyrgð á þessari umsókn. 17. júní daður breytir því ekki.
Hvernig getur Steingrímur og flokkur hans réttlætt það fyrir sér og þjóðinni að eyða milljörðum og ómældum tíma ríkisstarfsmanna í þennan leiðangur, sem virðist bara í plati ef marka má orð oddvita Vg í Skagafirði? Eru ráðherrastólarnir virkilega svona dýrmætir? – Það getur reyndar verið erfitt að ná ketti af stól, sem búinn er að læsa klónum í hann.
Þegar Steingrími var bent á það á alþingi hversu niðrandi það væri að nota 17. júní á þennan hátt í Brussel, þá sló hann um sig með sögum af félaga Kastró og frestun hans á jólunum. Þetta fannst honum fyndið hjá sér og kannski er það djókið sem farið er að gilda hjá ríki eins og borg.
Jóhanna líkti liðsmönnum Vg við ketti, en Bjarni bætir um betur og líkir þeim við læmingja. Hann varar þá við að steypa sér fram af bjargbrúninni á eftir Samfylkingunni, sem sér fyrirheitna landið í Brussel.
Læmingjum til varnar þá er talið að sögusagnir um það að þeir steypi sér í hópum fyrir björg sé ekki á rökum reistar og um þjóðsögur sé að ræða. Þeir séu skynsamari en það.
En leiðangur ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna til Brussel er kaldur veruleiki og á fullu um þessar mundir. Það er erfitt að tala um það á 17. júní þegar Íslendingar fagna fullveldi og frelsi þjóðarinnar. – Nei þá er betra að tala eins og enginn beri ábyrgð á þessum gæfulausa leiðangri sem ríkisstjórnin er nú villt í.
Á flokksráðsfundi sínum síðast liðna helgi fengu Vinstri grænir tækifæri til að fjarlægjast bjargbrúnina. Þeir kusu að gera það ekki.
Gísli Gunnarsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.