Kynbótasýning á Blönduósi 6. og 7. maí
Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda ákvað að halda kynbótasýningu hrossa fyrr en ætlað var vegna þeirrar veirusýkingar sem herjar á hross víða á landinu. Þar með gefst þeim hestamönnum kost á að sýna sín hross sem enn eru ósýkt.
Sýningin hefst kl. 8 í fyrramálið á svæði hestamannafélagsins Neista á Blönduósi og eru um 40 hross skráð til þátttöku. Yfirlitssýning verður á föstudagsmorgunn og hefst hún kl. 9:30.
Samkvæmt upplýsingum hjá Búnaðarsambandinu hafa hross í Húnaþingi ekki sloppið við veikina fremur en annars staðar á landinu og eru menn uggandi vegna ástandsins. Veikin er mun alvarlegri en í fyrstu var talið en virðist fara misilla í hrossin. Ekki er ráðlegt að stunda þjálfun eða keppni hafi þau veikst og ljóst má vera að margar áætlanir munu raskast hjá hestamönnum þar sem sýningar og mót eru framundan svo ekki sé talað um undirbúning fyrir Landsmót.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.