Árstíðir með tónleika í Blönduóskirkju
Hljómsveitin Árstíðir fagnar útgáfu nýjustu breiðskífu sinnar “VETRARSÓL” með því að halda tónleika í Blönduóskirkju sunnudaginn 6. apríl kl. 17:00. Forsala miða er á tix.is en einnig verður selt inn við hurð og er miðaverð 4.900 kr.
Platan er sú níunda sem sveitin hefur gefið út á ferli sínum og er sú fyrsta sem er eingöngu sungin, þ.e. án undirleiks. Hún inniheldur 12 lög á íslensku sem eiga það flest sameiginlegt að vera samin eða útsett af íslenskum tónskáldum fyrir sönghópa og kóra.
Á tónleikunum fá tónleikagestir að heyra lögin af plötunni í bland við eldri lög úr smiðju bandsins. Árstíðum til halds og traust á tónleikunum verður bassasöngvarinn Pétur Oddbergur Heimisson, en hann syngur einmitt í öllum lögunum á plötunni.
Hljómsveitin Árstíðir hefur verið starfandi frá árinu 2007 og hefur átt nokkurri velgengni að fagna á sínum ferli, og hefur t.a.m. spilað á tónleikum í meira en 30 mismunandi löndum og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Allt frá því að meðlimir sveitarinnar sungu sálminn Heyr himna smið á lestarstöð í Þýskalandi árið 2013, og myndband af þeim flutningi naut gríðarlegra vinsælda um allan heim á YouTube, þá hafa hlustendur sveitarinnar skorað á meðlimi að gefa út plötu sem innihéldi einungis sungin lög í svipuðum stíl - má því segja að platan “VETRARSÓL” sé svar Árstíða þeirri áskorun.
Tónleikarnir í Blönduóskirkju byrja klukkan 17:00 og opnar húsið kl. 16:30
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.