Kveðjumessa séra Sigurðar
Síðastliðinn sunnudag þjónaði séra Sigurður Grétar Sigurðsson í síðasta sinn til altaris í Hvammstangakirkju sem sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli. Bekkir kirkjunnar voru þétt setnir fólki sem mætti til að kveðja sinn ástsælan prest.
Eftir messu var efnt til kaffisamsætis í félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem fjöldi manns kom saman og hlýddu á kveðjuorð sóknarbarna sem og söng kirkjukórsins og frumsaminn kveðjusöng Guðmundar Hauks Sigurðssonar sem jafnframt var veislustjóri. Guðmundur Haukur færði Sigurði, fyrir hönd sóknarnefndarinnar, styttu að gjöf sem skorin er út í timbri af Helga Björnssyni í Huppahlíð. Við lok samsætisins hélt Sigurður Grétar þakkarræðu en ljóst er að Sigurðar Grétars og fjölskyldu verður sárt saknað af íbúum Húnaþings vestra.
Á Hvammstangablogginu segir að Sigurður Grétar hafi komið til Hvammstanga fyrir um 11 árum eða árið 1998. Haft var á orði að hann hefði komið hingað norður einn með búslóð sem rúmaðist í kerru en héðan fer hann, 11 árum síðar, með Önnu Elísabetu eiginkonu sinni og 6 börnum þeirra og gera má rá fyrir að þau þurfi um 40 feta gám til að koma allri búslóðinni suður. Þau halda nú suður á Reykjanes þar sem Sigurður mun þjóna Sandgerðis- og Garðsprestaköllum.
Myndirnar sendi Helga Hinriksdóttir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.