KS styrkir Bocuse d´Or akademíuna
Á síðari degi atvinnulífssýningarinnar, sem haldin var á Sauðárkróki um helgina, var undirritaður samningur milli Kaupfélag Skagfirðinga og Bocuse d´Or akademíunnar á Íslandi, um að félagið haldi áfram að vera aðalstyrktaraðili meistarakokkanna en akademían stendur að baki landsliði matreiðslumanna sem þátt taka hverju sinni í alþjóðlegu Bocuse d´Or keppninni.
Þráinn Freyr, futtrúi Bocuse d´Or, Óli Viðar Andrésson
sölustjóri afurðastöðvar og Bjarki Steingrímsson
sölustjóri Esju kjötvinnslu.
Kaupfélag Skagfirðinga hefur verið aðalstyrktaraðili Bocuse d´Or akademíunnar í um áratug og lengur sem styrktaraðili. Að sögn skagfirska meistarakokksins og fyrrum keppanda, Þráins Freys Vigfússonar, er um að ræða stærstu einstaklings matreiðslukeppni í heimi þar sem einn kandidat keppir frá hverri þátttökuþjóð. Hefur hann með sér nokkra hjálparmenn og svo kemur dómari frá hverri þjóð einnig. Þráinn segir Bocuse d´Or það hæsta sem hægt sé að fara í á þessu sviði og til að koma í veg fyrir misskilning vill hann að það komi skýrt fram að þetta sé ekki kokkalandsliðið, það sé allt annar handleggur og tekur þátt í liðakeppni.
Sigurjón Bragi Geirsson sem keppti fyrir hönd Íslands í
Bocuse d´Or heimsmeistarakeppni í Lyon í Frakklandi í janúar sl.
og Sindri G. Sigurðsson næsti kandídat Íslendinga.
„Þetta er byggt í kringum matreiðsluna og gerir það kannski að verkum að við erum að háskólamennta matreiðslumenn og aðstoðarfólk og vil ég segja að þetta sé grunnurinn að þeirri hágæða veitingastaðaflóru sem Ísland býður upp á í dag en matreiðslumenn fá gríðarlega reynslu og öðlast hæfni við að taka þátt í svona keppni,“ segir Þráinn.
Samningurinn gildir til tveggja ára og nær fram yfir næstu keppni sem fram fer í Þrándheimi í mars 2024. Þar mun kokkur ársins 2023, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, keppa um að komast til Lyon í janúar 2025.
Kampakátir að samnigsundirskriftum loknum,
Þráinn Freyr og Ágúst Andrésson.
„Samningurinn gengur út á að við leggjum til okkar nafn og okkar innsetningar fyrir ákveðna vinnu fyrir fyrirtækið og að sama skapi styrkir KS okkur við að halda úti þessu starfi sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur en kaupfélagið hefur verið okkar mikilvægasti bakhjarl lengi. Fyrir vikið höfum við náð alveg ótrúlegum árangri á heimsmælikvarða, í topp sex síðustu tíu árin,“ segir Þráinn.
„Fyrir okkur snýst þetta um að vera með nafnið okkar við það að styðja bestu matreiðslumenn Íslands til góðra verka og afreka á heimsmælikvarða. Kaupfélag Skagfirðinga er fyrst og fremst matvælaframleiðslufyrirtæki og því skiptir þetta okkur miklu máli,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður afurðastöðvar KS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.