Króksblót 2009

saudarkrokurÍ nokkurn tíma hefur staðið yfir undirbúningur að þorrablóti sem fyrirhugað er að halda á Sauðárkróki, fyrir Króksara og gesti þeirra. Það eru nokkrir einstaklingar úr árgangi 1957 sem hafa tekið sig saman og verið að vinna að ákveðnum undirbúningi þessa þorrablóts. 

Á undanförnum árum hafa verið haldin þorrablót um allar sveitir í kring um Krókinn fyrir þá sem þar búa og þeirra gesti, en ekkert þorrablót hefur verið fyrir íbúa Sauðárkróks.  Nú er stefnt að því að Króksarar komist á þorrablót á heimavelli.

 

Fyrirhugað er að Þorrablótið verði í íþróttahúsinu á Sauðárkróki, laugardaginn 5. febrúar á næsta ári.   Það verður með því sniði að gestir koma með sinn mat með sér eins og gengur og gerist á alvöru þorrablótum, boðið verður upp á heimatilbúin skemmtiatriði og annál Króksins svo eitthvað sé nefnt.  Síðan verður dansleikur með Hljómsveit Geirmundar fram eftir nóttu.

 

Það eru einstaklingar úr árgangi 1957 sem hafa verið að vinna að þessu og ætla að halda utan um framkvæmdina.  Þeir sjá fyrir sér að afhenda síðan keflið til árgangs 1958 sem síðan mun sjá um þorrablótið 2011 og svo koll af kolli. 

 

Nú boðar undirbúningshópurinn alla sem fæddir eru 1957  til fundar í vallarhúsinu á Sauðárkróki miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20:00.  Á þeim fundi mun vinnuhópurinn fara yfir stöðu mála og kynna næstu skref fyrir fundargestum ásamt því að hvetja þá til að koma inn í undirbúningsvinnuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir